Krækiberja- og engiferdrykkur
18. ágúst, 2008
Þessi drykkur er ferskur og frísklegur og upplagður á haustin þegar maður á krækiber. Drykkurinn er fullur af andoxunarefnum úr dökkbláa hýði krækiberjanna en einnig innihalda krækiber trefjar og eru afar járnrík. Appelsínusafinn hjálpar svo við upptöku járnsins. Engiferið er óþarft að kynna en það er bæði hreinsandi og frískandi. Ef ykkur finnst engifer ekki gott má sleppa því.
Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.

Afar hollur og frískandi drykkur
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Krækiberja- og engiferdrykkur
Fyrir 2
Innihald
- 100 ml appelsínusafi
- 1 banani, vel þroskaður (eða pera)
- 1 sm biti ferskt engifer (afhýtt og rifið)
- 2 lúkur krækiber
- 1 tsk agavesíróp (má sleppa)
- Nokkrir ísmolar
Aðferð
- Setjið banana út í blandarann ásamt appelsínusafanum. Blandið í um 5 sekúndur..
- Afhýðið engiferið og rífið það á rifjárni yfir blandaranum þannig að safinn leki ofan í.
- Setjið krækiberin út í ásamt agavesírópi ef þið viljið. Blandið í nokkrar sekúndur (ekki of lengi svo krækiberjasteinarnir merjist ekki).
- Ef þið viljið drykkinn vel fjólubláan, látið hann þá standa í blandaranum í um 30 mínútur.
- Bætið ísmolum út í og blandið í nokkrar sekúndur.
- Hellið í 2 glös og berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Það má gjarnan henda út í drykkinn nokkrum bláberjum.
- Nota má vel þroskaða peru eða mango í stað banana.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
23. ágú. 2011
Mjög góður drykkur, núna veit ég þó hvað ég get gert við krækiberin og þá verður mun skemmtilegra að týna þau.
23. ágú. 2011
Gaman að heyra Ragna :)