Kókosgrillaður kjúklingur
27. febrúar, 2003
Þessi réttur er frekar sterkur en góður engu að síður, upplagður fyrir þá sem vilja bragðmikinn, indverskan mat. Kjúklingurinn er marineraður í kryddum og kókosmjólk sem gerir hann einstaklega meyran. Einnig má nota grænmeti í stað kjúklings. Marinera þarf kjúklinginn í 2 klukkustundir þannig að gott er að gera ráð fyrir þeim tíma við undirbúning.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Kókosgrillaður kjúklingur
Fyrir 2-3
Innihald
- 360 g kjúklingabringur
- 5 g ferskt engifer, afhýtt og saxað smátt
- 12 g ferskt coriander, saxað gróft
- 2 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt
- 2 rauðir chili pipar
- 200 ml kókosmjólk
- 1 tsk kókosolía
- 2 msk tamarisósa
- 1 mtsk agavesíróp
- 0,5 msk fiskisósa (Nam Plah)
- Safi úr 1 límónu
Aðferð
- Afhýðið engiferið og hvítlaukinn og saxið smátt.
- Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
- Saxið coriander gróft.
- Blandið saman í stóra skál; chili pipar, engifer, hvítlauk, coriander, kókosmjólk, agavesíróp, tamarisósu, fiskisósu og sítrónusafa. Hrærið vel.
- Setjið kjúklinginn ofan í sósuna og dreifið vel yfir. Látið skálina í ísskáp og látið kjúklinginn marinerast í 2 klukkustundir.
- Hitið kókosolíu á pönnu og steikið kjúklinginn ásamt svolitlu af marineringunni. Steikið þangað til kjúklingurinn er tilbúinn.
- Hitið afganginn af sósunni í potti þangað til hún er farin að sjóða og berið fram með kjúklingnum.
Gott að hafa í huga
- Gott að bera réttinn fram með hýðishrísgrjónum eða byggi og fersku salati.
- Einnig er gott að bjóða upp á nýbakað, gróft snittubrauð með matnum.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar.
- Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
- Notið „hamingjusaman kjúkling" (free range) ef þið mögulega getið.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
10. jún. 2012
Fljótleg og góð, henti henni bara í ofninn. Mild fyrir krakkana :) Takk fyrir okkur :D