Klettasalat með rauðrófum og parmesan

Ég fékk svipað salat á krá einni í London sem er þekkt fyrir góðan mat enda er eigandi staðarins enginn annar en Gordon Ramsay. Við erum nú ekki þekkt fyrir að þræða krárnar en við vorum dregin þangað með loforð um góðan mat. Við vorum ekki svikin því ég fékk þetta dýrindis salat. Þó það kostaði hvítuna úr augunum þá var samt þess virði að prófa eitthvað nýtt. Ég var líka orðin ansi langeyg eftir rauðrófum (komið fram í miðjan ágúst og þær ekki farnar að láta á sér kræla á Íslandi). Þetta var því fullkomið. Ég ákvað strax að ég skyldi reyna að búa til svona salat þegar heim kæmi. Salatið var borið fram með linsoðnu eggi sem passaði vel við sem sósa ofan á salatið (og er allt í lagi að borða svona spari) en það má líka sleppa því eða nota aðra salatsósu með (eða balsamic edik). Salatið er sérlega járnríkt og auðvitað pakkfullt af andoxunarefnum og vítamínum.


Járn- og vítamínríkt salat

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án hneta

Klettasalat með rauðrófum og parmesan

Fyrir 2 sem meðlæti

Innihald

 • 1 rauðrófa, meðalstór
 • 75 g klettasalat (ruccola)
 • 1 pera, vel þroskuð
 • 10 g parmesan, ferskur
 • Smá klípa svartur pipar
 • 2 linsoðin egg (má sleppa)

Aðferð

 1. Skrúbbið rauðrófuna létt undir rennandi vatni.
 2. Pakkið rauðrófunni inn í álpappír og bakið við 200°C í um 35-40 mínútur.
 3. Látið rauðrófuna kólna og skrælið hana varlega (eða nuddið hýðinu af með fingrunum. Gott er að nota hanska því rauðrófur lita verulega).
 4. Setjið til hliðar (án þess að skera...annars fer hún að leka safanum).
 5. Skolið klettasalatið og raðið á fallegan disk (ekki í skál).
 6. Afhýðið peruna og sneiðið í frekar þunnar sneiðar.
 7. Sneiðið parmesan ostinn afar þunnt með ostaskera eða beittum hnífi.
 8. Skerið rauðrófuna í frekar litla bita (eða báta).
 9. Raðið perusneiðum og rauðrófusneiðum ofan á klettasalatið. Ekki hræra neitt í salatinu því annars verður allt fjólublátt og ógirnilegt.
 10. Dreifið parmesansneiðunum yfir.
 11. Dreifið svörtum pipar yfir.
 12. Linsjóðið eggin (5-7 mínútur) og berið þau fram með salatinu ef þið viljið.

Gott að hafa í huga

 • Salatið passar sérlega vel yfir sumarið og er gott í nestisboxið.