Kjúklingabaunabuff með hvítlaukssósu

Þessi uppskrift kemur upprunalega úr bók sem ég á sem heitir Delia’s Vegeterian Collection og er ein af uppáhalds uppskriftabókunum mínum. Ég er aðeins búin að breyta uppskriftinni með tímanum en meginuppistaðan er sú sama, kjúklingabaunir. Ég prófaði þessi buff í fyrsta skipti í útilegu! Ég var búin að hafa allt til og meira að segja búin að baka þau og svo hituðum við buffin bara á gasi í tjaldinu okkar undir Sólheimajökli. Það var skrýtinn svipur á lömbunum og mæðrum þeirra fyrir utan tjaldið og satt best að segja var ég mjög fegin því að vera ekki að grilla ættingja þeirra, ég hefði örugglega fengið martraðir og samviskubit. Ég borða hvort eð er ekki lambakjöt, finnst það hrikalega vont og JÁ ég er búin að fá allar heimsins útgáfur í gegnum árin, lundir, læri, heilt, grillað, marinerað, soðið, hitað, steikt o.s.frv. Mér finnst það alltaf jafn vont og fólki finnst það alltaf jafn mikil landráð og reynir alltaf jafn mikið að sannfæra mig um að það SÉ í rauninni gott (þó mér finnist það ekki):) Ég gafst endanlega upp á að reyna að borða það þegar ég var um tvítugt og hef ekki borðað síðan.

Nota má sojajógúrt og sojaost í staðinn fyrir venjulega jógúrtið og ostinn ef þið hafið mjólkuróþol. Buffin eru glúteinlaus. Buffin henta mjög vel til frystingar og er upplagt að frysta nokkur saman og taka með í nestisboxið.

Athugið að best er að nota matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift en einnig má saxa það hráefni sem á að fara í matvinnsluvélina, mjög smátt.

Mikilvægt er að mauka ekki hráefnið of mikið því það verður annars of blautt/lint. Einnig er mikilvægt að láta vatnið renna af kjúklingabaununum (setja í sigti) og sólþurrkuðu tómatarnir mega ekki vera með olíu. Þetta skiptir allt máli til að borgararnir verði ekki of linir. Einnig er mikilvægt að nota maísmjöl eða kartöflumjöl en ekki spelti.


Kjúklingabaunabuff með byggi og hvítlauksjógúrtsósu

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur

Kjúklingabaunabuff með hvítlaukssósu

Fyrir 3-4 (10-12 buff)

Innihald

Buffin:

  • 450 g niðursoðnar kjúklingabaunir (þyngd án vökva)
  • 1,5 tsk coriander fræ, heil
  • 1,5 tsk cumin fræ, heil (ekki kúmen)
  • 1 laukur, afhýddur (lítill) og saxaður gróft
  • 1 græn paprika (lítil), söxuð gróft
  • 2 stórir hvítlauksrif, afhýdd og söxuð gróft
  • 2 rauðir chili pipar, saxaðir gróft
  • 5 sólþurrkaðir tómatar (án olíu)
  • 50 g magur ostur, rifinn (má sleppa)
  • 0,5 tsk turmeric
  • 1 tsk karrí
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 10 g ferskt coriander, saxað
  • Nokkrar matskeiðar AB mjólk eða hrein jógúrt (aðeins ef þarf)
  • 1 stórt egg, hrært lauslega
  • 3-5 msk kartöflumjöl (eða spelti ef þið hafið ekki glúteinóþol)
  • 1 msk kókosolía
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 0,5 tsk svartur pipar

Hvítlauksjógúrtsósan:

  • 400 ml hrein jógúrt eða AB mjólk
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) (sleppið ef þið notið hvítlaukssalt)
  • 1 tsk hvítlaukssalt eða 1 pressað hvítlauksrif
  • Smá klípa svartur pipar
  • Blandið öllu saman og kælið

 

Aðferð

  1. Þurrristið corianderfræin og cuminfræin á pönnu (án olíu) þangað til þau fara að ilma og hoppa til á pönnunni. Takið fræin strax af hitanum og malið í kryddkvörn eða steytið þau í morteli.
  2. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið gróft.
  3. Skerið papriku og chili pipar langsum og fræhreinsið. Saxið paprikuna gróft en chili piparinn frekar smátt.
  4. Setjið lauk, chili pipar, papriku og hvítlauk í matvinnsluvél og blandið í nokkrar sekúndur aða þannig að allt verði frekar smátt saxað án þess að verði að mauki.
  5. Bætið coriander- og cuminfræjunum út í ásamt karríi og turmerici og blandið í nokkrar sekúndur. Setjið svo í stóra skál.
  6. Saxið coriander gróft.
  7. Rífið ostinn á rifjárni.
  8. Saxið sólþurrkuðu tómatana smátt (sérstaklega ef þið notið sólþurrkaða tómata án olíu).
  9. Næst skal hella vökvanum af kjúklingabaununum og setja þær í sigti í smá stund.
  10. Færið kjúklingabaunirnar í matvinnsluvélina, ásamt fersku coriander og sólþurrkuðum tómötum og látið saxast aðeins. Ekki mauka alveg því það á að vera smá til að bíta í.
  11. Setjið þetta í stóru skálina og blandið öllu saman.
  12. Hrærið saman egg, osti og kókosolíu og bætið út í. Hrærið vel.
  13. Bætið kartöflumjölinu eða speltinu saman við og hrærið mjög vel.
  14. Bætið AB mjólkinni saman við (ef þarf) ásamt sítrónusafanum. Ef blandan er of stíf, setjið þá aðeins meira af AB mjólk. Ef blandan er hins vegar of lin bætið þá aðeins af kartöflumjöli við.
  15. Kælið í smástund í ísskáp.
  16. Mótið um 12 flöt buff í höndunum.
  17. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið buffin á plötuna.
  18. Bakið við 190°C í um 30-40 mínútur, snúið a.m.k. einu sinni.
  19. Á meðan buffin bakast, útbúið þá hvítlaukssósuna:
  20. Blandið saman 400 ml AB mjólk eða hreinni jógúrt, 1 tsk hvítlaukssalti (eða 1 tsk salt og 1 pressuðu hvítlauksrifi) ásamt smá klípu svörtum pipar og steinselju. Blandið öllu saman og kælið.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að bera fram coriandersalsa með borgurunum.
  • Nota má sojajógúrt og sojaost í staðinn fyrir venjulega jógúrtið og ostinn ef þið hafið mjólkuróþol.
  • Buffin henta mjög vel til frystingar og er upplagt að frysta nokkur saman og taka með í nestisboxið.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo). Þerrið með eldhúsþurrku.
     

Ummæli um uppskriftina

áhugasöm
30. nóv. 2010

Þessi uppskrift er rosalega girnileg og ég mun einhvern tímann búa þetta til við tækifæri.
Mig langar samt að spurja - það eru ekki allir hrifnir af coriander, er ekki í lagi að sleppa því? Líka með cumminið, er hægt að nota malað cummin? Þú segir 5 sólþurrkaðir tómatar. Áttu þá við 5 sneiðar?

sigrun
01. des. 2010

Sæl

Það má alveg sleppa coriander (maðurinn minn er heldur ekki hrifin af því).

Þú getur notað malað cumin, það er allt í lagi en notaðu bara aðeins minna (ekki meira en tæplega teskeið) en smakkaðu til ef þú vilt bæta meiru við.

Sólþurrkaðir tómatar eru þeir 'bitar' sem eru í krukkunum eða pokunum (ég nota þurrkaða í pokum) og svo sker maður þá niður eða gerir það sem maður þarf við þá. Sem sagt 1 tómatur í uppskriftinni = 1 'biti' úr krukkunni/pokanum.&;

Anna Vala Eyjólfsdóttir
03. jan. 2012

Hæ, prufaði þessa uppskrift og varð mjög svekkt. Hún leit vel út og skemmtileg brögð og krydd í gangi. Svo var hún alltof blaut svo ég þurfti að setja ansi mikið af spelt til að geta mótað buffin með höndunum eins og þú orðar það. Gæti trúað að það væri best að setja þau bara lin með skeið á plötu og ath hvort þetta bakast ekki. En þau urðu alltof mjölmikil og bragðlaus. Ég sit uppi með alltof mörg buff sem ég ætla bara að henda.

sigrun
03. jan. 2012

Sæl Anna Vala það þykir mér leiðinlegt að heyra, ég hef gert þessi buff mörgum sinnum og þau heppnast alltaf vel. Ég tek fram í aðferðarlýsingunni að maður eigi að bæta litlu við af vökva í einu svo að blandan verði ekki of blaut. Maður á að geta mótað buffið í höndunum og sett þau þannig á plötuna. Ef það er ekki hægt, eru þau of blaut. Að blanda mjöli út í eftir að blandan er orðin of blaut er í raun neyðarúrræði því alltaf verður það á kostnað bragðsins.&;

Þú þarft ekki endilega að fleygja buffunum, þú getur t.d. notað þau í pottrétt eða í súpu (í staðinn fyrir kjöt).

Ég hef gert ótal margar misheppnaðar tilraunir í gegnum árin, maður verður bara að bretta upp á ermarnar og reyna aftur :)

Tóta
12. jan. 2012

Ég gerði buffin í gær og ég sleppti ab-mjólkinni og olíunni en þau urðu samt of lin. Ég gat amk ekki mótað þau með höndunum. Massinn var fínn þar til ég setti eggið í en ég þorði ekki að sleppa því afþví að eggíð hlýtur að binda buffin saman.
Ég geri samt buffin, setti þau með skeið (eins og smákökudeig) á pönnu og þau voru SJÚKLEGA góð. En mig langar til að gera þau stærri og meira djúsí :)
Ég var reyndar með gróft spelt mjöl en ekki kartöflumjöl, ætli það geti verið málið ?

sigrun
12. jan. 2012

En dularfullt hmmmm....Ég held að ég taki bara út AB mjólkina úr uppskriftinni því einhverra hluta vegna er uppskriftin 'of blaut' hjá flestum þó ég hafi aldrei lent í þessu (og hef gert þau ótal sinnum). Það eina sem mér dettur í hug er að grænmetið sé stórt þ.e. stór paprika, stór laukur og því fylgir auðvitað meiri vökvi. Það var rétt ályktað að sleppa ekki egginu, því það er einmitt bindur.

Það getur skipt máli já, að nota spelti í staðinn fyrir kartöflumjöl (sérstaklega gróft) því, kartöflumjölið er mun fínna og bindur hráefnið mun meira saman ('þurrkar það' ef svo má segja).

Ég ætla að uppfæra uppskriftina núna svo fólk sé nú ekki að lenda í þessu.

gestur
12. sep. 2013

Sæl Sigrún, við ákváðum að prófa þessa girnilegu uppskrift :) Þú ert ekki að baka buffin með blæstri er það, bara venjulegum yfir og undir hita er það ekki?

sigrun
12. sep. 2013

Ég nota blástur nema ég taki annað fram en ef þú notar ekki blástur á þessa uppskrift skaltu nota um 20-30°C lægri hita og baka við aðeins lengri tíma (10-15 mín eða svo). Hafðu samt í huga að bakstursofnar eru svolítið misjafnir!

gestur
31. okt. 2013

Þú segir í inngangi að alls ekki nota spelti en svo neðar val??

sigrun
31. okt. 2013

Já, ef þú hefur ekki glúteinóþol geturðu vel notað spelti. Fyrir þá sem eru mjög óvanir og sjá uppskrift sem er glúteinlaus (en hafa ekki glúteinóþol) er mjög algengt að t.d. hætta við uppskriftina því þeir halda að hún geti "einungis" verið glúteinlaus. Það er ekki svo. Ef þú hefur ekki glúteinóþol skiptir auðvitað engu máli hvort að þú notar spelti eða kartöflumjöl. Ef þú hefur glúteinóþol notarðu kartöflumjöl. Hins vegar má bæta því við í sviga að þú hafir val, hafirðu ekki glúteinóþol.

gestur
13. mar. 2014

Heppnaðist svakalega vel hjá mér í fyrstu tilraun og stelpurnar mínar gúffuðu í sig :-) Ég notaði um 600 g af kjúklingabaunum (bara vegna þess að ég átti það til tilbúið), notaði enga mjólk, eitt egg, sólþurrkaða tómata með olíu (lét bara olíuna leka af, engin sérmeðferð) og spelti. Notaði skeið til þess að setja þau á plötuna og ýtti aðeins á þau til að móta. Á pottþétt eftir að gera þessa uppskrift aftur :-) Takk fyrir :-)

sigrun
13. mar. 2014

Æðislegt að heyra :) Takk fyrir að láta okkur vita! :)