Kínversk ýsa
27. febrúar, 2003
Hljómar skringilega kannski, kínversk ýsa, en þessi réttur er algjört nammi, algjör dekurýsa og alveg þess virði að prófa hann. Bráðhollur réttur í þokkabót. Mig minnir að upprunalega hafi þessi uppskrift komið úr Nýkaupsbókinni hans Sigga Hall en ég er lítilega búin að breyta uppskriftinni (nota kókosolíu í stað ólífuolíu, tamarisósu í stað sojasósu og agavesíróp í stað sykurs).
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
Kínversk ýsa
Fyrir 4
Innihald
- 800 g ýsuflök, beinhreinsuð og roðflett
- 1 msk kókosolía
- 1 msk sesamolía
- 3 msk tamarisósa
- 1 msk hvítvínsedik (e. hvítvínsedik) eða hrísgrjónaedik
- Nokkrir steviadropar án bragðefna eða 1 msk agavesíróp
- 3 sm bútur ferskt engifer, afhýtt og saxað mjög smátt
- 3 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt
- 4-8 vorlaukar (eftir stærð), skornir í 5 sm bita (ljósi og græni hlutinn)
- 1 rauð eða gul paprika, skorin í strimla
- Smá klípa svartur pipar
Aðferð
- Skerið ýsuna í 12 jafnstóra bita.
- Blandið saman í skál; kókosolíunni, tamarisósunni, hvítvínsedikinu og steviadropum. Hrærið vel.
- Afhýðið engiferið og hvítlaukinn og saxið smátt. Setjið út í skálina.
- Skerið vorlaukana í 5 sm bita og setjið í skálina.
- Skerið paprikuna langsum, fræhreinsið og skerið hana í strimla. Setjið út í skálina.
- Hellið innihaldi skálarinnar yfir ýsubitana. Látið ýsubitana liggja í vökvanum í 1-2 klukkustundir eða lengur
- Takið ýsubitana upp úr og leggið í eldfast mót.
- Takið sem mest af grænmetinu sem er í skálinni og látið það með skeið ofan á ýsubitan. Hellið vökvanum yfir ýsubitana.
- Kryddið svolítið með svörtum pipar.
- Hitið ofninn í 140°C og bakið fiskinn í 10-15 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með hýðishrísgrjónum eða byggi og tamarisósu.
- Nota má gula papriku í staðinn fyrir rauða.
- Nota má annan fisk í staðinn fyrir ýsu t.d. þorsk, steinbít eða lúðu.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
03. júl. 2011
Meira segja drengurinn (3ja ára) borðaði fiskinn og af disknum hjá pabba sínum þegar hann var búinn með sinn!
Ég sem sagt get mælt með þessum rétti! En það kæmi mér ekki á óvart að það væri hægt að setja dressinguna á kjúkling líka
03. júl. 2011
Dressingin má vel fara á kjúkling og grænmeti líka...og gaman að heyra að strákurinn hafi borðað vel af matnum, það eru alltaf góð meðmæli (sérstaklega þegar um fisk er að ræða) :)
19. des. 2011
ég gerði þennan um daginn og ætla að gera hann aftur í kvöld, hrikalega góður, en hvernig salat helduru að sé gott að hafa með?
19. des. 2011
Gott að heyra :) Ég myndi mæla með einföldu salati með tahini sósu  eða salati sem passar með ýmsum mat