Kínóasalat með ávöxtum, spínati og fetaosti

Eitt af uppáhaldssalötunum mínum, passar sem meðlæti eða léttur hádegisverður og er alveg hreint frábært í nestisboxið. Það er dúndurhollt, litríkt og bragðgott!


Litríkt, einfalt og hollt salat

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Kínóasalat með ávöxtum, spínati og fetaosti

Fyrir 2-3 sem meðlæti eða léttur hádegisverður

Innihald

 • 250 g kínóa (þrílitt ef þið finnið svoleiðis en annars venjulegt eða rautt)
 • 450 ml vatn
 • ½ grænmetisteningur
 • 1 avocado, vel þroskað
 • 100 g jarðarber
 • ½ mango
 • 25 g spínat
 • Lófafylli baunaspírur
 • 50 g fetaostur í saltvatni (má sleppa)
 • Lófafylli salthnetur úr heilsubúð

Aðferð

 1. Skolið kínóa kornið í fíngata sigti. Setjið svo í pott og sjóðið það í 450 ml af vatni ásamt grænmetisteningnum í um 20 mínútur.
 2. Skerið avocadoið í munnbitsstóra bita.
 3. Snyrtið og skerið jarðarberin og mangoið.
 4. Saxið hneturnar
 5. Setjið kínóakornið á botninn á salatdiski og raðið spínati og baunaspírum þar ofan á. Bætið því næst avocadobitum, mangoi og jarðarberjum út á. Að lokum skuluð þið setja salthneturnar saman við. Berið fetaostinn fram sér ef þið viljið. 

Gott að hafa í huga

 • Nota má ristaðar og saltaðar makadamiahnetur í staðinn.