Kalt hrísgrjónasalat

Þetta hrísgrjónasalat er fullt af vítamínum, próteinum, flóknum kolvetnum&;og hollri fitu. Það er bæði hægt að nota salatið sem meðlæti og svo finnst mér voða gott að útbúa helling af því til að geta haft það í nestisboxið.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Vegan

Kalt hrísgrjónasalat

Fyrir 2

Innihald

  • 1 bolli hýðishrísgrjón (eða bygg)
  • 4-5 kirsuberjatómatar, skornir í helminga
  • 3-4 sólþurrkaðir tómatar (án olíu), saxaðir smátt
  • 2 msk furunetur, þurrristaðar á pönnu
  • 1 msk sólblómafræ, þurrristuð á pönnu
  • Hálf paprika, gul eða appelsínugul, skorin í smáa bita
  • 1 avocado, vel þroskað, saxað gróft

Aðferð

  1. Sjóðið grjónin samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og setjið til hliðar.
  2. Skerið kirsuberjatómatana í helminga.
  3. Saxið sólþurrkuðu tómatana í smáa bita.
  4. Þurrristið furuhnetur og sólblómafræ á pönnu (án olíu) í nokkrar mínútur eða þangað til fræin fara að taka lit.
  5. Fræhreinsið paprikuna og skerið í smáa bita.
  6. Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og skerið í smáa bita.
  7. Blandið öllu varlega saman og berið fram kalt.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að setja sesamfræ út í salatið. Þurrristið þau í nokkrar sekúndur á heitri pönnu.
  • Mjög gott er að setja svolítið af nori (svörtu þangblöðin sem notuð eru í sushi) út í grjónin. Klippið þau í mjóaar ræmur.
  • Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo).
  • Ólífur passa vel í salatið sem og fetaostur (í vatni).
  • Nota má bygg í staðinn fyrir hrísgrjón en athugið að bygg inniheldur glútein.