Jólakaka með ensku ívafi

Bretar elska puddingana sína (puddings). Pudding er í raun samheiti yfir alls kyns eftirrétti og getur verið hvað sem er, allt frá súkkulaðiköku yfir í ís. Pudding er sem sagt ekki eins og hjá Bandaríkjamönnum þ.e. búðingur. Upprunalegt pudding er þó meira í ætt við enska jólaköku, svona hálfkúlulaga kaka með þurrkuðum ávöxtum, hvítu sykurkremi og jafnvel heitu vanillugumsi yfir. Þetta gera Bretar gjarnan fyrir jólin. Mig langaði alveg ofsalega mikið til að búa til holla, enska jólaköku en ég hafði hreinlega ekki lagt í það. Svo var ég á ferð í bókabúð hérna í London og rakst á litla bók frá Australia Women’s Weekly seríunni (sem er frábær). Í henni voru uppskriftir meðal annars að puddings fyrir jólin og var ein uppskriftin í hollari kantinum. Ég breytti henni lítillega þó því ég vil ekki kaupa sykraða ávexti né með litum eða aukaefnum. Það eiginlega útilokar grænu og rauðu kirsuberin (kokteilberin) sem eru yfirleitt í jólakökunum og ég þurfti því aðeins að leggja höfuðið í bleyti. Í þessari köku er enginn viðbættur sykur og aðeins tvær teskeiðar af kókosolíu! Kakan geymist vel í um viku (en ekki marga mánuði eins og óhollar kökur) svo það er best að gera nokkrar kökur og eiga í frystinum. Þær geymast frosnar í nokkra mánuði. Kakan er ótrúlega djúsí og góð þó holl sé! Kakan hentar þeim sem hafa ofnæmi fyrir eggjum, hnetum og mjólkurvörum. Þetta er ein af uppáhaldskökunum hans Jóhannesar og hann algjörlega elskar jólakökuna, enda fæ ég alltaf sömu spurningu frá honum í nóvember: „hvenær ætlarðu að baka jólakökuna?”.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél og stórt brauðform til að útbúa þessa uppskrift.


Jólakaka með ensku ívafi, en holl

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Jólakaka með ensku ívafi

Gerir 1 kökubrauð

Innihald

  • 250 g soðið og maukað grasker (um 400 g óunnið)
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 250 g aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu)
  • 80 g döðlur
  • 120 g ferskur ananas eða úr dós, í eigin safa (safi notaður)
  • Börkur af einni appelsínu
  • Börkur af hálfri sítrónu
  • 150 g dökkar rúsínur
  • 150 g ljósar rúsínur
  • 290 ml apríkósusulta (hrein, án viðbætts sykurs og aukaefna)
  • 10 dropar hrein stevia eða 1 tsk hlynsíróp
  • 2 tsk kókosolía
  • 280 g spelti
  • 3 tsk kanill
  • 2 tsk negull (e. clove)
  • 1 tsk múskat (e. nutmeg)
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 3-4 msk hreinn ananassafi

Aðferð

  1. Afhýðið graskerið, fræhreinsið það og saxið í stóra bita. Setjið bitana í pott ásamt salti og vatni þannig að rétt fljóti yfir. Sjóðið graskerið í um 20 mínútur eða þangað til það er orðið mjúkt. Kælið og maukið í um eina mínútu í matvinnsluvél eða þangað til silkimjúkt. Setjið til hliðar.
  2. Saxið döðlur og aprikósur gróft.
  3. Rífið appelsínubörkinn gróft á rifjárni og sítrónubörkinn fínt. Gætið þess að rífa aðeins börkinn sjálfan, ekki þetta hvíta fyrir innan.
  4. Látið safann leka vel af ananasinum og geymið safann.
  5. Í annan pott skuluð þið setja alla ávextina (aprikósur, döðlur, rúsínur, ananas) og börkinn ásamt stevia dropum, kókosolíu og aprikósusultu. Sjóðið í um 5 mínútur og kælið svo aðeins.
  6. Í mjög stóra skál skuluð þið sigta saman spelti, lyftiduft, kanil, múskat og negul. Hrærið vel.Hellið graskersmaukinu varlega út í stóru skálina..
  7. Bætið nú ávaxtablöndunni úr pottinum út í skálina og hrærið varlega í öllu með sleif.
  8. Setjið bökunarpappír í stórt brauðform (14 sm á breidd og 21 sm á lengd) og hellið blöndunni ofan í (má líka setja í 2 minni form en baka þá í aðeins skemmri tíma).
  9. Bakið við 180°C í 60 mínútur. Ef toppurinn er orðinn mjög dökkur eftir 30-40 mínútur má breiða álpappír yfir kökuna, eða lækka hitann og færa kökuna neðar.
  10. Eftir 60 mínútur skuluð þið skoða kökuna og pota prjóni eða hnífi í miðjuna og ef hnífurinn kemur út með deigi á (þó það sé bara smávegis) skuluð þið baka hana í aðrar 15 mínútur. Ef þið stingið í ávöxt þá verður hnífurinn blautur eftir hann en það er ekki eins og þegar deigið er ekki nægilega bakað, þá koma meira eins og klessur á hnífinn.
  11. Athugið kökuna eftir 15 mínútur og bakið lengur ef þörf er á. Það er misjafnt eftir ofnum hvað kökurnar þurfa.
  12. Þegar kakan er komin úr ofninum, stingið þá strax mörg göt í hana og hellið nokkrum matskeiðum af ananassafanum yfir kökuna.
  13. Pakkið kökunni, volgri í forminu, inn í álpappír og látið kólna alveg, jafnvel yfir nótt.

 

Gott að hafa í huga

  • Gott er að gera nokkrar kökur, skera þær í helminga, pakka inn í bökunarpappír og plastpoka og geyma í frysti. Þá er hægt að taka út hálfar kökur í einu.
  • Nota má 75 g þurrkuð epli eða mangó (án sykurs eða aukaefna) á móti ananasinum.
  • Nota má appelsínumarmelaði/sultu í staðinn fyrir aprikósusultuna og má þá sleppa appelsínuberki í uppskriftina. Ég hef meira að segja í neyð notað rabarbarasultu á móti appelsínumarmelaði og kakan heppnaðist bara vel.
  • Í staðinn fyrir grasker er hægt að nota butternut squash.
  • Hægt er að kaupa niðursoðið grasker í flestum stærri matvöruverslunum. Kaupið maukað og ósykurbætt grasker.
  • Mikilvægt er að nota ósykurbættan ananas (ef þið notið úr dós). Best er auðvitað að nota ferskan ananas en einnig er gott að nota þurrkaðan.
  • Mikilvægt er að nota lífrænt ræktaðar aprikósur (þessar brúnu) því þessar appelsínugulu er búið að meðhöndla með efnum til að þær líti betur út.
  • Nota má steviadropa með kanilbragði í staðinn fyrir hreina steviadropa.