Jógúrtís með ananas og kiwi

Þetta er dálítið suðrænn ís þar sem í honum er meðal annars ananas og kiwi. Það er samt enginn sem segir að maður geti ekki borðað hann í frostinu heima á Íslandi :) Hann er léttur og fínn og upplagður fyrir fólk sem vill hollan og ferskan ís.

Athugið að ekki er nauðsynlegt að eiga ísvél til að gera þessa uppskrift en það er alls ekki verra.


Jógúrtís með ananas og kiwi

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Jógúrtís með ananas og kiwi

Gerir 1 lítra

Innihald

 • 200 g ananaskurl (eða ferskur ananas) í eigin safa
 • 1 vel þroskað kiwi í bitum, afhýtt og saxað
 • 120 ml hreinn ananassafi
 • 70 ml agavesíróp
 • 125 ml kókosmjólk
 • 125 ml hrein jógúrt

Aðferð

 1. Sigtið ananasinn og hellið safanum í skál.
 2. Geymið kurlið.
 3. Afhýðið kiwiið og skerið í bita.
 4. Hrærið saman agavesírópi, jógúrti, kókosmjólk og ananassafa.
 5. Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 30 mínútur og setjið svo í plastbox. Hrærið ananaskurli og kiwibitum út í. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
 6. Ef ekki er notuð ísvél:
 7. Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið út frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Eftir um tvær klukkustundir skuluð þið hræra ananaskurlinu og kiwibitunum út í. Setjið aftur í frystinn og frystið þangað til ísinn er tilbúinn.
 8. Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.

Gott að hafa í huga

 • Að sjálfsögðu er best að nota ferskan ananas í staðinn fyrir ananas úr dós. Ef þið hafið tök á því að nota ferskan og sætan ananas, skuluð þið endilega gera það. Saxið hann í stóra bita og maukið hann í 5 sekúndur eða svo, í matvinnsluvél.
 • Nota má sojajógúrt í staðinn fyrir venjulega jógúrt.
 • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hann í ísmolabox og nota síðar.

Ummæli um uppskriftina

gestur
05. maí. 2012

Sæl, mér líst rosavel á þetta allt saman hjá þér en ég er að byrja að breyta mataræði fjölskyldunnar og það tekur tíma :) Hvaða kókosolíu notar þú og hvar verslar maður allar þessar hollu vörur ?

B.kv
Haddý :)

sigrun
05. maí. 2012

Sæl Haddý

Ég kaupi kaldpressaða kókosolíu hérna í heilsubúðunum í London. Þú getur skoðað úrvalið í t.d. Fjarðarkaupum, Hagkaupum, Bónus og fleiri verslunum og svo auðvitað heilsubúðunum. Allt sem ég nota ætti að fást á Íslandi (ég reyni að passa vel upp á það). Þú getur notað hvaða kaldpressaða og lífrænt framleidda kókosolíu sem er, berðu bara saman verð. Vertu í sambandi ef þú ert með fleiri spurningar :)