Járnríkur aprikósudrykkur
26. apríl, 2009
Þurrkaðar aprikósur innihalda helling af járni og appelsínusafinn hjálpar til við upptöku járnsins í líkamanum. Ég get svo svarið fyrir það að eftir að ég drakk þennan fína drykk hresstist ég við til muna en kannski er það ímyndun (eða óskhyggja). Hann er allavega mjög bragðgóður og hollur og inniheldur C vítamín og trefjar sem halda meltingunni í lagi, fólinsýrur (sem er gott fyrir ófrískar konur) og A vítamín sem passar upp á sjónina okkar. Mikilvægt er að nota lífrænt ræktaðar aprikósur en ekki þessar appelsínugulu sem hafa verið meðhöndlaðar með efnum til að þær líti betur út.
Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þessa uppskrift.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Járnríkur aprikósudrykkur
Fyrir 1-2
Innihald
- 5 þurrkaðar aprikósur (þessar dökkbrúnu, lífrænt ræktuðu, ekki þessar appelsínugulu)
- Nokkrir ísmolar
- 4-5 appelsínur eða 150 ml appelsínusafi
- 2 stór greipaldin eða 150 ml ferskur greipaldinsafi
- 2 tsk agavesíróp (eða acacia hunang)
- Smá klípa múskat (enska: nutmeg)
Aðferð
- Saxið aprikósurnar gróft og látið þær liggja í volgu vatni í um 30 mínútur.
- Hellið vatninu frá aprikósunum (ekki notað).
- Pressið greipaldin og appelsínur í sítruspressu.
- Setjið ísmolana í blandara ásamt 50 ml af appelsínusafanum. Blandið vel í um 5 sekúndur.
- Setjið aprikósurnar út í blandarann ásamt agavesírópinu og 50 ml af greipaldinsafanum. Blandið mjög vel eða í allt að 1 mínútu.
- Hellið afgangnum af appelsínu- og greipaldinsafanum út í blandarann ásamt múskatinu. Blandið í um 1 mínútu.
- Hellið í glös og berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Einnig má nota lífrænt framleidda aprikósusultu án viðbætts sykurs í staðinn fyrir þurrkuðu aprikósurnar.
- Gott er að setja hálfan banana út í.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
04. nóv. 2012
Gott