Jarðarberja- og vatnsmelónudrykkur

Þessi drykkur er í miklu uppáhaldi og það er sérstaklega áferðin sem mér finnst svo frábær því hún er loftkennd og freyðandi. Drykkurinn er auðvitað mjög bragðgóður líka og að sjálfsögðu ofurhollur. Hann er trefjaríkur, sprengfullur af andoxunarefnum, C vítamíni, A vítamíni o.fl. Jarðarber eru ofurholl, innihalda alveg heilan helling af C vítamíni (100 grömm innihalda ráðlagðan dagsskamt). Þau innihalda líka kröftug andoxunarefni og eiga að geta spornað gegn myndun krabbameinsfruma. Einnig hafa jarðarber þótt vera góð til að viðhalda heilbrigðum augum og góðri sjón sem og eiga þau að vera vörn gegn gigt. Bananar innihalda kalíum (potassium) sem er svo gott fyrir hjartað og á að hjálpa til við að halda blóðþrýstingi í jafnvægi og að stuðla að því að hjartað sé heilbrigt. Einnig innihalda bananar (og reyndar vatnsmelónur líka) B6 vítamín, eru góðir fyrir beinin okkar og einnig innihalda þeir trefjar sem eru góðar fyrir meltinguna. Eins og þið sjáið á lýsingunni er þetta algjör ofurdrykkur!

Best er að nota blandara til að útbúa þennan drykk en það má bjarga sér með matvinnsluvél.


Frískandi og fullur af C vítamíni

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Jarðarberja- og vatnsmelónudrykkur

Fyrir 2-3

Innihald

  • 50 g jarðarber (fersk eða frosin)
  • 200 g köld, steinalaus vatnsmelóna (þyngd miðast við að búið sé að fjarlægja börkinn)
  • 50 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
  • Lítill banani, vel þroskaður
  • Nokkrir ísmolar ef notuð eru fersk jarðarber

Aðferð

  1. Ef jarðarberin eru frosin látið þau þá þiðna aðeins áður en þið setjið þau í blandarann, þau geta annars skemmt hann.
  2. Skerið börkinn af melónunni og fjarlægið steinana ef melónan var ekki steinalaus.
  3. Setjið jarðarberin í blandarann ásamt vatnsmelónunni og sojamjólkinni.
  4. Maukið allt í 10-15 sekúndur á fullum hraða.
  5. Bætið banananum út í og maukið í 10 sekúndur á fullum hraða.
  6. Hellið í glös og berið fram strax, með ísmolum ef þarf.

Gott að hafa í huga

  • Nota má möndlumjólk, hrísmjólk, haframjólk eða undanrennu í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Fyrir auka C vítamín og trefjaskammt má bæta 1 vel þroskuðu kiwi út í blandarann.