Hrískökur með súkkulaði eða carob

Þetta er einstaklega fljótlegt og upplagt að gera þegar mann langar í eitthvað sætt en ekki neitt of óhollt. Ég keypti mér stundum svona í heilsubúðum en eftir að ég las innihaldslýsinguna eitthvert skiptið þá hugsaði ég nú með mér að það væri hin mesta vitleysa að útbúa ekki svona sjálf. Mér finnst mjög gott að stinga þessu í nestisboxið til að borða síðdegis (þegar mann langar í eitthvað sætt) og svo maula ég hrískexið stundum með kaffinu. Best er að kaupa dökkt eða ljóst carob en einnig má nota t.d. ljóst eða dökkt súkkulaði, lífrænt framleitt með hrásykri. Hrískökur (enska: rice cakes) fást í öllum búðum og carob fæst í heilsubúðum eða heilsuhillum stærri matvöruverslana.

Athugið að carob/súkkulaði getur innihaldið mjólk svo skoðið innihaldið ef þið hafið mjólkurofnæmi.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Hrískökur með súkkulaði eða carob

6 - 8 stykki

Innihald

  • 100 g carob eða súkkulaði (dökkt eða ljóst)
  • 6-8 hrískökur

Aðferð

  1. Bræðið carobið/súkkulaðið í potti við MJÖG vægan hita (minnsta, minnsta mögulega hita). Það má alls ekki brenna við í pottinum (þá verður það ónýtt). Um leið og hellan volgnar getið þið slökkt undir henni. Fylgist vel með carobinu/súkkulaðinu. Einnig má bræða carob/súkkulaði yfir vatnsbaði (hitið vatn í potti, setjið skál ofan í og carobið/súkkulaðið ofan í skálina. Carobið/súkkulaðið má ekki komast í snertingu við vatnið, ekki einu sinni einn dropa.
  2. Dýfið hrískökunum lárétt ofan í bráðið carobið/súkkulaðið. Dreypið carobi/súkkulaði yfir með skeið, ef þið viljið hafa það þykkara.
  3. Látið kólna.
  4. Geymið í lokuðu plastboxi.

Gott að hafa í huga

  • Carob er hægt að fá í plötum svipað og súkkulaðistykki. Athugið að hægt er að fá carob með eða án mjólkur.
  • Einnig má nota dökkt eða ljóst súkkulaði (lífrænt framleitt með hrásykri).
  • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.