Hnetusteik II

Þetta er hnetusteik sem ég hef stundum gert um jól og hún er frá Sólveigu á Grænum Kosti. Alveg stórgóð steik úr frábærri bók. Ég mæli með því að allir eigi eintak af þessari bók (Grænn Kostur Hagkaupa). Uppskriftin er birt með góðfúslegu leyfi Sólveigar. Hnetusteikin er glúteinlaus, án eggja og án mjólkur.

Til að flýta fyrir sér má nota ristaðar, saxaðar heslihnetur. Athugið að matvinnsluvél þarf fyrir þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Hnetusteik II

Gerir eina hnetusteik fyrir um 6-8 manns

Innihald

Hnetusteikin:

 • 200 g soðnar kartöflur
 • 300 g soðin hrísgrjón (ég nota bygg eða hýðishrísgrjón)
 • 2 laukar afhýddir og saxaðir smátt
 • 200 g sæt kartafla, skræld og rifin
 • 200 g sellerírót (ég notaði sellerí), rifin
 • 2 msk kókosolía
 • 200 g cashewhnetur
 • 200 g heslihnetur
 • 4 msk tómatmauk (puree)
 • 2 msk timian
 • 2 msk karrí
 • 0,5 tsk chili pipar
 • 1 msk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Raspið:

 • 100 g sesamfræ
 • 100 g cashewhnetur

Aðferð

 1. Sjóðið byggið eða hýðishrísgrjónin sem og kartöflurnar og setjið til hliðar. Skrælið kartöflurnar þegar þær eru orðnar kaldar.
 2. Afhýðið laukana og saxið þá mátt.
 3. Skrælið sætu kartöfluna og rífið á rifjárni ásamt selleríinu. Má líka setja augnablik í matvinnsluvél (með rifjárnsblaði).
 4. Þurrristið heslihneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af.
 5. Þurrristið allar cashewhneturnar (200 g + 100 gr).
 6. Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og malið í 5-10 sekúndur eða þangað til nokkuð fínmalað án þess að verði að cashewmauki. Takið 100 g af cashewhnetunum frá og setjið til hliðar.
 7. Setjið 200 g af cashewhnetunum ásamt heslihnetunum í matvinnsluvél og malið í um 20 sekúndur eða þangað til nokkuð fínmalaðar.
 8. Hitið kókosolíu á stórri pönnu. Steikið lauk, sæta kartöflu og sellerí þangað til laukurinn er farinn að mýkjast. Ef vantar meiri vökva bætið þá vatni út á pönnuna.
 9. Bætið timian, karríi, chili pipar og salti út á pönnuna ásamt og tómatmauki og leyfið öllu að malla við lágan í um 20 mínútur. Slökkvið svo undir hitanum og látið kólna aðeins og setjið svo í stóra skál.
 10. Stappið kartöflurnar gróft og setjið í stóru skálina ásamt hrísgrjónunum. Hrærið vel saman (eða notið hrærivél).
 11. Mótið hleif (eins og brauðhleif) og veltið hleifinum upp úr raspinu (sesamfræjum og möluðu cashewhnetum).
 12. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið hleifinn á plötuna.
 13. Bakið við 200°C í um 40 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Ég hef fryst svona hnetusteik með góðum árangri. Hún varð bara betri!
 • Uppskriftin er mjög stór svo ef það eru fáir í mat er allt í lagi að minnka uppskriftina, eða frysta helminginn af henni.
 • Ég hef stundum slept raspinu og það var allt í lagi. Ég hef líka stundum notað einungis sesamfræ og það er einnig gott.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.

Ummæli um uppskriftina

Áslaug Kristjánsdóttir
06. des. 2011

Frábært

santa
08. des. 2011

Sæl, er að spá í að malla þetta um jólin, eða fyrir jólin. En hvað er borið fram með svona steik? er ekki gott að gera einhverja sósu líka?

sigrun
09. des. 2011

Undir hitt og þetta á vefnum finnurðu bæði heitar og kaldar sósur sem flestar passa vel með hnetusteikinni!! Hvítlaukssósur hvers konar eru mjög góðar með henni sem og sveppasósur.