Hnetusmjör

Það er eitthvað alveg stórkostlegt við að búa til sitt eigið hnetusmjör og um leið spara helling af peningum. Jóhannes borðar mikið af hnetusmjöri (hann borðar ekki kaldan ost (aðeins bráðinn) og vantar því oft viðbit ofan á brauð o.fl.). Hnetusmjör hentar honum líka vel því það er prótein í því, holl fita og er því ákaflega seðjandi. Hnetusmjör passar líka bara í svo margt eins og t.d. í alls kyns drykki, til ísgerðar, í smákökur, ofan á brauð og margt fleira. Það er líka frábært í gönguferðina því það er mjög orkuríkt og geymist vel. Hnetusmjör er líka hollt (í hóflegu magni auðvitað) og ég tala nú ekki um ef maður hleður ekki í það sykri, hellings salti o.fl. eins og er að finna í sumum tegundum af keyptu hnetusmjöri.

Jarðhnetur innihalda helling af manganese og eru góðar fyrir hjarta, geta hindrað myndun gallsteina, eru góðar fyrir heilasellurnar og margt fleira. Það er minna en ekkert mál að búa svona hnetusmjör til heima hjá sér. Það eina sem þið þurfið er matvinnsluvél. Ef þið eruð ekki með góðar græjur borgar sig að skipta magninu í tvennt og vinna með helminginn í einu. Eini gallinn við jarðhnetur er að sumir hafa alvarlegt ofnæmi fyrir þeim og jafnvel lífshættulegt bráðaofnæmi, maður ætti því alltaf að fara varlega í að gefa ungum börnum jarðhnetur/hnetusmjör nema ef þið eruð viss um að þau þoli hneturnar.

Vissuð þið að jarðhnetur tilheyra baunum (pea) en ekki hnetum! Athugið að ef þið kaupið saltaðar hnetur getið þið skolað saltið af þeim og bakað við 160°C í 10-12 mínútur áður en þið maukið þær.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Hnetusmjör

Gerir 500 grömm

Innihald

  • 500 g jarðhnetur (peanuts), ósaltaðar, óristaðar og ekki í skel
  • 3-4 msk hnetuolía (eða ólífuolía), gæti þurft meira
  • 2 msk agavesíróp
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Hitið stóra pönnu. Þurrristið hneturnar í 10-15 mínútur eða þangað til þær eru farnar að taka lit (brúnast).
  2. Látið hneturnar kólna.
  3. Nuddið hýðið af hnetunum með lófanum. Það ætti að fara auðveldlega af. Athugið að þetta er eitthvað sem er gott að láta krakka dunda sér við (þ.e. ef þau hafa ekki ofnæmi)!
  4. Ef þið viljið gróft hnetusmjör, takið þá 2 lúkur af hnetum frá og setjið til hliðar.
  5. Setjið hneturnar í matvinnsluvél. Maukið í 3 mínútur samfleytt. Ef vélinni gengur illa að vinna hneturnar (hoppar til og frá eða erfiðar) skiptið magninu þá í tvennt.
  6. Setjið olíuna og agavesírópið út í skálina í mjórri bunu á meðan vélin vinnur.
  7. Bætið afganginum af jarðhnetunum út í (ef þið viljið hnetumsjörið gróft) og maukið í 30 sekúndur.
  8. Bætið saltinu út í (ef þið notið ósaltaðar hnetur) og maukið í 3-5 mínútur (með hléum ef þarf). Þið gætuð þurft að skafa hliðar skálarinnar öðru hvoru.
  9. Hnetusmjörið ætti að vera orðið alveg maukað, aðeins glansandi og nánast alveg slétt. Það verður ekki fljótandi heldur meira eins og þykkt mauk.
  10. Smakkið til með meira salti og agave sírópi ef þarf. Ef það er of þurrt, bætið þá aðeins af olíu út í. Ekki nota vatn því hneturnar mygla fljótt af því.

Gott að hafa í huga

  • Athugið að ef þið kaupið saltaðar hnetur getið þið skolað saltið af þeim með rennandi vatni (skolið 5-6 sinnum í sigti og látið svo renna af þeim í 10 mínútur). Dreifið hnetunum á bökunarplötu og bakið þær við 160°C í 10-12 mínútur. Slökkvið á ofninum og látið hneturnar kólna alveg inni í honum. Setjið svo hneturnar í matvinnsluvélinna og haldið áfram frá skrefi 5 í lýsingunni fyrir ofan. Ef þið notið hnetur sem búið er að salta, skuluð þið ekki bæta við meira af saltinu.
  • Þessa uppskrift má einnig nota fyrir cashewhnetur, möndlur, heslihnetur o.fl.
  • Ef hnetusmjörið ykkar er of gróft (ekki maukað), er blaðið líklega ekki nægilega beitt.

Ummæli um uppskriftina

doraeldjarn
22. sep. 2011

Besta snakk í heimi er að dýfa eplabátum í þetta hnetusmjör. Namm namm!

sigrun
24. sep. 2011

Epli + hnetusmjör = sönn ást :)