Hnetu- og karríborgarar
6. nóvember, 2009
Þetta eru aldeilis fínir grænmetisborgarar og eru í ætt við karríhnetusteikina hérna á vefnum. Borgararnir eru mildir en bragðgóðir og henta því allri fjölskyldunni. Þeir henta einnig vel sem fylling í t.d. spelt pítubrauð. Borgararnir eru pakkfullir af vítamínum, próteinum, trefjum og hollri fitu. Það er upplagt að gera heilan helling í einu og frysta. Þeir henta líka sérlega vel í nestisboxið sem og á til upphitunar á grillið í útilegunni.
Athugið að auðvelt er að gera uppskriftina eggjalausa og glúteinlausa. Uppskriftin er án mjólkur og hentar því þeim sem hafa mjólkuróþol.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án eggja
- Án glúteins
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Hnetu- og karríborgarar
Gerir 20-25 borgara
Innihald
- 2 meðalstórir laukar, saxaðir smátt
- 1 rauður chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
- 6 hvítlauksrif, marin eða söxuð smátt
- 5 sm biti ferskt engifer, afhýtt og rifið á rifjárni
- 1 msk kókosolía
- 2 tsk karrí
- 2 tsk tómatmauk (puree)
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 1 lítil kartafla, skræld og rifin á rifjárni
- 2 meðalstórar gulrætur, rifnar á rifjárni
- 300 g blómkál (þyngd fyrir snyrtingu). Brjótið í litla sprota og rífið á rifjárni eða í matvinnsluvél
- 140 g blandaðar hnetur (cashew-, hesli-, eða Brasilíuhnetur), malaðar í matvinnsluvél
- 25 g corianderlauf, söxuð gróft. Notið nokkur lauf í að skreyta hnetusteikina
- 100 g spelt brauðrasp (eða spelt hrökkbrauð)
- 1 egg, hrært lauslega
Aðferð
- Afhýðið engifer, lauk og hvítlauk og saxið smátt.
- Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
- Skrælið kartöflu og gulrætur og rífið á rifjárni.
- Rífið blómkál á rifjárni eða setjið í matvinnsluvél (með blaði til að rífa grænmeti). Malið í 3-5 sekúndur.
- Hitið kókosolíuna á stórri pönnu. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva.
- Steikið laukinn þangað til hann fer að mýkjast.
- Bætið chili, hvítlauk, karríi, tómatmauki, salti og engiferi út í og hitið í nokkrar mínútur.
- Bætið rifnu kartöflunni, gulrótunum og blómkálinu saman við og hitið í nokkrar mínútur.
- Setjið ofangreint hráefni í stóra skál.
- Saxið corianderlauf smatt.
- Setjið hnetur og brauðsneiðar (eða hrökkbrauð) í matvinnsluvél og blandið í nokkrar sekúndur eða þangað til nokkuð fínmalað. Setjið í stóru skálina og hrærið vel.
- Bætið egginu og coriander saman við og hrærið vel.
- Mótið borgarana í höndunum (svona eins og vatnsglas í ummál). Gott er að hafa þá tæpa 1 sm eða svo á þykkt.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið borgurunum á plötuna.
- Bakið í 30-40 mínútur við 190°C. Snúið borgurunum eftir 25-30 mínútur og bakið áfram.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með t.d. hvítlauksjógúrtssósu (köld) eða sveppasósu (heit) ásamt byggi eða hýðishrísgrjónum og góðu salati.
- Borgararnir slá alltaf í gegn sem nesti og bragðast vel kaldir.
- Upplagt er að frysta borgarana og geymast þeir þannig í nokkra mánuði ef vel pakkaðir inn í plastpoka eða box. Gott er að setja bökunarpappír á milli borgaranna svo þeir frjósi ekki í einn köggul. Þannig getur maður líka kippt einum og einum úr frystinum í einu og hitað upp.
- Nota má glúteinlaust hrökkbrauð eða brauð í staðinn fyrir spelt brauð eða hrökkbrauð.
- Nota má eitthvað annað krydd í staðinn fyrir coriander t.d. basil og steinselju ef ykkur finnst coriander ekki gott.
- Ef þið hafið eggjaofnæmi getið þið í staðinn notað 1 msk af hörfræjum sem hafa legið í 3 msk af vatni í 20 mínútur. Hellið hörfræjum og vatninu út í stóru skálina og hrærið.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024