Hlynsíróps- og sesamsmjörssmákökur

Þó þið prófið bara eina smákökuupskrift um jólin þá myndi ég prófa þessa. Smákökurnar eru syndsamlega góðar, algerlega ávanabindandi. Þær eru líka hollar (svona fyrir utan sykurinn í hlynsírópinu) því sesamsmjörið (tahini) er fullt af járni, próteinum og kalki ásamt fleiru sniðugu. Þó það sé mikil fita í sesamsmjörinu þá er það næstum helmingi minna magn af fitu en t.d. í smjöri og fitan er holl! Það besta er að það tekur bara um 10 mínútur að búa uppskriftina til! Þessar kökur koma eilítið mjúkar úr bakstrinum en harðna svo og haldast harðar ef maður geymir þær í lokuðu íláti. Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt þegar fólk er að reyna bera fram nafnið á þessum smákökum, sérstaklega ef það reynir að bera það fram mjög hratt. Ég hefði getað látið þær heita hlynsíróps- og tahinismákökur en það er ekki næstum því eins skemmtilegt!

Uppskriftin er merkt sem án hneta en inniheldur sólblómafræ og mauk af sesamfræjum sem sumir hafa ofnæmi fyrir.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara til að útbúa þessa uppskrift.


Syndsamlega góðar jólasmákökur

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta
  • Vegan

Hlynsíróps- og sesamsmjörssmákökur

Gerir um 30 smákökur

Innihald

  • 150 g haframjöl
  • 125 ml hreint hlynsíróp (e. maple syrup)
  • 125 ml ljóst eða dökkt sesamsmjör (e. tahini)
  • 45 g sólblómafræ
  • 50 g rúsínur

Aðferð

  1. Malið helminginn af haframjölinu (75 gr) í matvinnsluvél eða blandara. Setjið í stóra skál.
  2. Hrærið saman hlynsírópi og sesamsmjöri í skál og hrærið þangað til það er orðið vel blandað saman. Gott er að nota hrærivél, matvinnsluvél eða blandara til að hræra en þarf ekki.
  3. Hellið sesamsmjörsblöndunni út í stóru skálina ásamt afganginum af haframjölinu. Hrærið vel. Bætið sólblómafræjum og rúsínum út í skálina og hrærið vel.
  4. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið 1 kúfaða teskeið af deigi fyrir hverja smáköku, á bökunarplötuna. Hafið svolítið bil á milli smákakanna. Þrýstið létt ofan á með gaffli. Gott er að dýfa gafflinum í vatn inn á milli. 
  5. Bakið við 180°C í um 15-18 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gullnar. Kælið.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að bæta við 1 tsk af kanil í deigið til að fá meira jólabragð.
  • Hægt er að nota saxaðar pecanhnetur eða heslihnetur í staðinn fyrir sólblómafræin.
  • Ef ykkur finnst kökurnar of sætar má setja 50 g af möluðum möndlum út í deigið.
  • Nota má saxaðar döðlur í staðinn fyrir rúsínur.
  • Nota má fínmaukað hnetusmjör í staðinn fyrir sesamsmjör.
  • Sesamsmjör (tahini) fæst í heilsubúðum.