Helgukjúklingur (Tandoori kjúklingaréttur)
23. febrúar, 2003
Þessi uppskrift kemur frá Helgu kunningjakonu minni í Englabörnunum sem fékk hana frá Erlu í Englabörnunum sem fékk hana frá.... o.s.frv. Það er alveg ástæða fyrir því að hún fer eins og eldur um sinu í saumaklúbbunum, alveg frábær réttur og hefur aldrei slegið feilnótu í þau skipti sem ég hef borið hann á borð, hann slær alltaf í gegn. Þetta er reyndar merkileg uppskrift því þetta var allra fyrsta uppskriftin sem fór inn á vef CafeSigrun þann 23. febrúar 2003!!! Þessi réttur er uppáhalds-uppáhalds rétturinn hans Jóhannesar.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
Helgukjúklingur (Tandoori kjúklingaréttur)
Fyrir 3-4
Innihald
- 1 kjúklingur soðinn eða grillaður, skinnlaus (verður að vera tilbúinn þ.e. ekki hrár)
- 500 ml jógúrt
- 2 msk maísmjöl blandað í 2 msk vatn
- 100-200 g mangomauk
- 50-75 g möndluflögur
- 2-3 vel þroskaðir bananar
- 3 msk tandoori krydd
- 2 msk karrí
Aðferð
- Rífið allt kjöt í strimla (skinnið fjarlægt) og setjið í eldfast mót.
- Sneiðið bananana og setjið ofan á kjúklinginn.
- Blandið maísmjölinu saman við vatnið og hrærið vel. Hellið út í jógúrtina þegar blandan er orðin kekkjalaus.
- Blandið mango maukinu saman við jógúrtina í meðalstórri skál.
- Setjið tandoori kryddið og karríið út í og hrærið vel. Sósan ætti að verða ljósrauð eða ljósbleik.
- Hellið yfir kjúklinginn.
- Dreifið möndlunum yfir.
- Hitið við 180°C í 15-20 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Það er mjög gott að hafa ferskt salat, hýðishrísgrjón eða bygg og nýbakað, gróft snittubrauð með þessum rétti.
- Hægt er að kaupa lífrænt framleitt mango chutney, án sykurs í heilsubúðum.
- Notið „hamingjusaman kjúkling" (free range) ef þið mögulega getið.
- Nota má hafrarjóma eða matreiðslurjóma í staðinn fyrir jógúrt.
- Einnig má nota sojajógúrt í staðinn fyrir venjulega jógúrt.
- Ef þið notið ekki grillaðan kjúkling getið þið steikt kjúklinginn (skinnlausan) upp úr smá kókosolíu og vatni.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
22. jan. 2011
Var að prófa þennan rétt í kvöld. Heppnaðist mjög vel og það besta var að allir borðuðu vel. Unglingarnir sem venjulega eru frekar ekki nýjungagjörn þegar kemur að matnum voru mjög ánægð með réttinn. Meðlætið var freskt salat, hrísgrjón og snittubrauð.
23. jan. 2011
Gaman að heyra Þórunn og sérstaklega að unglingunum hafi líkað maturinn vel :) Takk fyrir að deila með okkur.
25. maí. 2011
Hvað er maísmjöl og hvaða tilgangi þjónar það í þessari uppskrift? Má sleppa því?
25. maí. 2011
Sæl
Það „bindur” jógúrtið svo það hlaupi ekki í kekki þegar það hitnar og gerir „sósuna” aðeins þykkari. Jógúrt hleypur auðveldlega í kekki þegar maður hitar það og það gerist síður með maísmjöli. Í upprunalegu uppskriftinni er rjómi en ég nota jógúrt. Hef ekki prófað að sleppa maísmjöli.
Kv.
Sigrún
19. okt. 2011
Bjó yil þennan rétt í kvöldmat og vá! hann var æði! takk fyrir þessa uppskrift :)
20. okt. 2011
Gaman að heyra :)
07. jan. 2013
Þessi réttur var prófaður í gær og var algjört æði. Takk fyrir frábærar uppskriftir. Hlakka til að prófa fleiri.
07. jan. 2013
Frábært! Vona að allt hitt heppnist vel líka :)
14. sep. 2014
Sæl!
Hvernig jógúrt notar þú í þennan rétt?
15. sep. 2014
Venjulega, hreina jógúrt en þú getur líka notað gríska :)