Heitur ávaxtaeftirréttur með hnetum

Ég fékk þessa fínu uppskrift hjá Smára bróður og Önnu Kristínu konunni hans. Þetta er hollur og góður eftirréttur, fullur af vítamínum og andoxunarefnum ásamt hollri fitu úr hnetunum. Hann er æðislegur með heimatilbúnum vanilluís eða rjóma fyrir þá sem hann vilja. Upplagt er að stinga eftirréttinum í ofninn þegar maður er að klára að borða kvöldmatinn því hann verður tilbúinn á rúmum hálftíma!!!

Athugið að þið þurfið eldfast mót til að útbúa þessa uppskrift.

Gott er að flýta fyrir sér með því að kaupa ristaðar og afhýddar heslihnetur.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Heitur ávaxtaeftirréttur með hnetum

Fyrir 4-5

Innihald

  • 50 g blandaðar hnetur, ósaltaðar (pecan-, cashew-, heslihnetur), þurrristaðar og saxaðar gróft
  • 1 pera, vel þroskuð, skorin í þunnar sneiðar
  • 2 sæt epli, sæt skorin í þunnar sneiðar
  • 1 vel þroskuð aprikósa (eða mango), skorin í þunnar sneiðar
  • Fjórðungur ferskur ananas, skorinn í bita
  • 40 g haframjöl
  • 100-150 g frosin bláber (eða önnur ber)
  • 150 ml hreinn trönuberjasafi (enska: cranberry juice) eða appelsínusafi
  • 2 msk agave síróp (meira fyrir sætara bragð)

Aðferð

  1. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af. Saxið gróft.
  2. Þurrristið cashewhneturnar og pecanhneturnar í nokkrar mínútur. Saxið gróft.
  3. Kjarnhreinsið peruna og skerið í þunnar sneiðar.
  4. Skerið aprikósurnar í þunnar sneiðar.
  5. Afhýðið ananasinn, kjarnhreinsið og skerið í bita.
  6. Dreifið haframjölinu á botninn á eldföstu móti (óþarfi er að smyrja mótið).
  7. Raðið perusneiðunum ofan á, því næst aprikósusneiðunum og loks ananasbitunum.
  8. Stráið hnetunum yfir.
  9. Dreifið frosnu bláberjunum yfir hneturnar.
  10. Blandið saman agavesírópinu og trönuberjasafanum (eða appelsínusafanum) og hellið yfir.
  11. Bakið við í 30 mínútur við 200°C í um 30 mínútur.
  12. Berið réttinn fram heitan með heimatilbúnum vanilluís og sojarjóma eða venjulegum rjóma svona spari :) Ef þið hafið mjólkuróþol er tilvalið að búa til cashewhneturjóma.

Gott að hafa í huga

  • Setja má fleira í þennan rétt eins og til dæmis rúsínur, döðlur, fíkjur o.fl.
  • Best er að kaupa trönuberjasafa úr heilsubúð (án viðbætts sykurs) því venjulegur trönuberjasafi er yfirleitt mikið sykurbættur.