Haustsúpa með sætum kartöflum og eplum
18. ágúst, 2008
Þessi súpa er fín fyrir krakkana því hún er mild og svolítíð sæt. Hún fer einkar vel í maga og er stútfull af C vítamínum. Það er ekkert glútein í súpunni og ekki heldur mjólk. Hún hentar því vel þeim sem hafa glútein- og/eða mjólkuróþol.
Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.

Svolítið sæt og öðruvísi súpa
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Haustsúpa með sætum kartöflum og eplum
Fyrir 4-5
Innihald
- 3 blaðlaukar, sneiddir í mjóar sneiðar
- 1 msk kókosolía
- 1 stór gulrót, afhýdd og sneidd í þunnar sneiðar
- 600 g sætar kartöflur, afhýddar og saxaðar gróft
- 2 græn epli, afhýdd og söxuð gróft.
- 1,2 lítrar af vatni
- 2 gerlausir grænmetisteningar
- Smá klípa múskat (enska: nutmeg)
- 225 ml eplasafi
- 225 ml kókosmjólk
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- Svartur pipar eftir smek
Aðferð
- Sneiðið blaðlaukinn í mjóar sneiðar.
- Afhýðið sætu kartöflurnar, eplin og gulrótina. Sneiðið gulrótina þunnt en saxið sætu kartöflurnar gróft. Kjarnhreinsið eplin og saxið gróft.
- Hitið kókosolíuna í stórum potti.
- Setjið blaðlaukinn í pottinn og mýkið í 6-8 mínútur. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva.
- Bætið gulrótunum, sætu kartöflunum, eplunum og vatninu út í ásamt grænmetisteningunum.
- Kryddið með salti, pipar og múskati.
- Látið suðuna koma upp, minnkið svo hitann og látið malla í um 20 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
- Kælið súpuna aðeins og hellið svo í smá skömmtum í blandara eða matvinnsluvél og maukið eftir smekk. Mér finnst gott að mauka svona súpur svolítið mikið.
- Setjið súpuna aftur í pottinn og bætið eplasafanum og kókosmjólkinni saman við.
- Hitið að suðu en látið ekki bullsjóða.
- Berið fram með snittubrauð.
Gott að hafa í huga
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
12. des. 2011
Notaði venjulegan lauk í stað blaðlauks og bætti við engifer. Súpan var stórkostlega góð :)
12. des. 2011
Sniðug að bæta engiferi við og gott að vita að hægt sé að nota lauk í stað blaðlauks :) Gaman að heyra að súpan hafi heppnast svona vel. Það er upplagt að frysta hana og hita upp síðar, verður bara betri þannig :)
22. okt. 2014
Við gerðum þessa súpu í leikskólanum um daginn
og hún sló algjörlega í gegn :)
Gerum þessa klárlega aftur.
Kveðja Hafdís og Elín á Holtakoti
22. okt. 2014
Frábært að heyra :)