Hafrakex

Það er ekki endilega auðvelt að finna uppskriftir að hollu hafrakexi og ég var búin að leita lengi. Flest hafrakex sem maður finnur í búðum er óhollt nema maður finni eitthvað gott í heilsubúðunum. Ég fann uppskrift loksins í Australian Women’s Weekly seríunni sem ég er svo hrifin af. Ég reyndar breytti uppskriftinni aðeins og gerði hana hollari. Ég notaði spelti, kókosolíu, hrásykur og agave í stað fyrir að nota smjör, hveiti, hvítan sykur og sykursíróp. Einnig notaði ég sojamjólk í stað mjólkur. Hafrakexið er frekar sætt og það má minnka agavesírópið aðeins til að geta notað kexið t.d. með osti (sumum finnst kannski allt í lagi að nota sætt kex í svoleiðis en mér finnst það ekki gott). Ég er svo ánægð með hafrakexið mitt, ég horfði stolt á það þegar ég var búin að baka kexið og fannst ég vera heimsins klárasti bakari. Þær runnu líka ljúflega niður í gesti. Hafrakexið er próteinríkt og sniðugt á milli mála þegar mann langar í eitthvað sætt en jafnframt hollt. Gætið þess að baka kexið ekki of lengi svo það verði ekki of hart.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara til að mala haframjölið fínt.

Athugið einnig að ég nota muscovado sykur í þessa uppskrift en nota má annan hrásykur (helst ljósan) í uppskriftina. Rapadura hrásykur hentar ekki í hafrakexið að mínu mati þar sem hann er of dökkur.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Hafrakex

Gerir um 30-35 kexkökur

Innihald

 • 270 g haframjöl, malað í matvinnsluvél
 • 160 g spelti
 • 65 g muscovado sykur (eða annar hrásykur)
 • 5 msk kókosolía
 • 60 ml agavesíróp
 • 80 ml sojamjólk

Aðferð

 1. Setjið haframjölið í matvinnsluvél og malið það í 30 sekúndur eða þangað til fínmalað.
 2. Setjið haframjölið í stóra skál og bætið spelti og muscovado sykrinum saman við. Hrærið vel.
 3. Hitið kókosolíu varlega þannig að hún linist aðeins en bráðni ekki alveg. Klípið kókosolíuna í búta og setjið út í deigið.
 4. Hitið agavesíróp og sojamjólk í litlum potti við vægan hita í nokkrar mínútur. Hellið út í stóru skálina. Hnoðið deigið vel þannig að ekki séu ójöfnur eða sprungur í því. Notið nokkra dropa af mjólk í viðbót ef þarf. Deigið á að vera frekar stíft og þannig að hægt sé að fletja það út.
 5. Fletjið deigið með kökukefli (best er að nota bökunarpappír undir og ofan á eða strá spelti á borðið og kökukeflið svo það festist ekki við. Fletjið þangað til deigið er 3 mm að þykkt.
 6. Notið lítið kökuskurðarmót (um 4,5 sm í þvermál) eða glas með skörpum kanti til að skera út kökur (meðalstórt vatnsglas er best).
 7. Setjið á bökunarpappír og hafið 2 sm bil í næstu köku. Stingið hverja köku nokkrum sinnum með gaffli.
 8. Bakið við 180°C í um 10-12 mínútur eða þangað til kexið er orðið gullbrúnt.
 9. Kælið.

Gott að hafa í huga

 • Hafrakexið geymist í um 5 daga í lokuð íláti. Ef þið ætlið að geyma það lengur er best að frysta deigið og útbúa kökur þegar deigið er þiðið því kökurnar mýkjast upp með geymslu.
 • Það er hægt að gera kexið minna sætt og setja t.d. parmesanost og svartan pipar í uppskriftina. Þá myndi það henta vel með smurosti og osti.
 • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Muscovado hrásykur fæst í heilsubúðum.

Ummæli um uppskriftina

ingibjorgd
06. apr. 2011

Mmmm þetta hafrakex er alveg hreint ljúffengt! Ég bakaði þetta áðan með stráknum mínum og nú sitjum við og gæðum okkur á volgu hafrakexi með osti og erum bæði svona ægilega sátt :)

sigrun
07. apr. 2011

Frábært að heyra :)

Ragnhildur
13. jún. 2011

Æðislegt hafrakex. Mæli eindregið með þessu.

sigrun
14. jún. 2011

Gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur :)

gestur
20. nóv. 2011

Ætli það sé gott að setja kanil eða rúsínu í það? :)

sigrun
20. nóv. 2011

Það er örugglega mjög gott...sniðug hugmynd :)

Thelma sjöfn
18. mar. 2014

sæl
er möguleiki á að skipta út spelti fyrir kókoshveiti eða möndluhveiti? og hrásykurinn skipt út fyrir sætuefni ?
kókosmjólk í stað soja ? er ég kannski að eyðileggja uppskr. á þessu braski ?

sigrun
18. mar. 2014

Sko...þá ertu í rauninni komin með allt aðra uppskrift :) Ég myndi kannski prófa t.d. uppskrift  í staðinn frá Elana Amsterdam sem er svo sniðug? http://www.elanaspantry.com/rosemary-crackers/ Þetta er reyndar ekki hafrakex en er samt gott kex og auðvelt líka :)