Gulrótarkakan hans Alberts

Þessa uppskrift sendi notandi vefjarins, Albert Eiríksson mér og mælti með að ég prófaði. Sem ég gerði daginn eftir og sé ekki eftir því. Kakan var svona líka ljómandi góð og ekki er verra að hún er hráfæðiskaka og algjörlega stútfull af vítamínum, próteini, hollri fitu og trefjum.

Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa uppskriftina og gott er að nota kökuform en ekki nauðsynlegt. Athugið einnig að leggja þarf cashewhneturnar í bleyti í rúma klukkustund áður en þær eru maukaðar. Texti í hornklofa er minn.

Á myndina mína vantar súkkulaðispæni og sítrónubörk sem á að vera í uppskriftinni. Ég var of æst þegar ég var að mynda kökuna og gleymdi að setja hvoru tveggja ofan á. Athugið að til að kakan geti talist hráfæðiskaka þyrftuð þið annað hvort að búa til ykkar eigið súkkulaði, eða kaupa hrátt súkkulaði í heilsubúð (eða nota kakónibbur).


Dásamlega (og hráa) gulrótarkakan hans Alberts

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan
  • Hráfæði

Gulrótarkakan hans Alberts

Gerir 1 köku

Innihald

Botn

  • 350 g gulrætur, afhýddar og rifnar á rifjárni
  • 150 g döðlur, saxaðar gróft
  • 130 g aprikósur, saxaðar gróft
  • 80 g rúsínur
  • 100 g valhnetur [ég notaði helming valhnetur, helming pecan hnetur]
  • 125 g kókosmjöl
  • 1 msk kókosolía
  • 3 msk vatn
  • 0,5 tsk salt
  • 0,5 tsk múskat (enska: nutmeg)
  • 0,5 tsk allrahanda
  • Rifinn sítrónubörkur [til að skreyta með]
  • Dökkt, súkkulaði, rifið á rifjárni [til að skreyta með]

Cashew krem

  • 200 g cashew hnetur
  • 2 tsk agavesíróp eða [acacia] hunang
  • 1 msk kókosolía
  • 3 tsk vatn
  • Klípa af salti [Himalaya eða sjávarsalt]

Aðferð

  1. Byrjið á kreminu:
  2. Leggið hneturnar í bleyti í 1-2 klukkustundir.
  3. Hellið vatninu af hnetunum og setjið þær í matvinnsluvél. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til vel maukaðar.
  4. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og bætið hunangi eða agavesírópi út í, ásamt kókosolíu, vatni og salti. Blandið í um 5 sekúndur.
  5. Setjið kremið til hliðar.
  6. Undirbúið nú kökuna:
  7. Afhýðið gulræturnar og rífið meðal gróft á rifjárni.
  8. Setjið hneturnar í matvinnsluvél og blandið í um 5 sekúndur eða þangað til smátt saxaðar. Setjið í stóra skál.
  9. Saxið döðlur og aprikósur gróft og setjið í matvinnsluvél ásamt rúsínunum, kókosolíu og vatni. Blandið í um 20 sekúndur eða þangað til ávextirnir eru orðnir nokkuð vel saxaðir en án þess að vera maukaðir. Setjið í stóru skálina.
  10. Bætið rifnu gulrótunum út í skálina ásamt kókosmjöli, salti, múskati og allrahanda. Hrærið mjög vel.
  11. Takið til stóran disk/kökudisk og setjið gulrótarblönduna ofan á diskinn. Mótið köku með stórri sleikju (eða höndunum). Einnig má nota form með bökunarpappír í botninum. Þykktinni ráðið þið.
  12. Smyrjið kreminu á kökuna og geymið í ísskáp í um klukkustund.
  13. Skreytið með góðu, dökku súkkulaði (rifnu á rifjárni), sítrónuberki og jafnvel berjum.

Gott að hafa í huga

  • Nota má pecan hnetur í staðinn fyrir valhnetur eða á móti þeim.
  • Nota má carob í staðinn fyrir súkkulaði en bragðið verður auðvitað ekki eins.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.

Ummæli um uppskriftina

Jóhanna Hildiberg
27. sep. 2011

Hljómar girnilega en hvað get ég notað í staðinn fyrir hnetur?

sigrun
27. sep. 2011

Ég myndi halda að það væri mjög erfitt að gera kökuna án hneta :( Möguleiki að nota tofu en áferðin verður allt önnur auðvitað.

Hallab
29. mar. 2013

Þessi kaka litur rosalega vel út! En hvað er þetta allrahanda sem a að vera i kökunni?

sigrun
29. mar. 2013

Allrahanda (negulpipar) er krydd sem fæst í flestum stærri matvöruverslunum, minnir að það heiti AllSpice á ensku, líka callað Jamaica Pepper :)

SandraD
20. sep. 2013

Breytir einhverju hvort það séu ferskar eða þurrkaðar apríkósur? :)

sigrun
02. maí. 2014

Sæl, jú það breytir reyndar öllu :) Kakan verður ekki nægilega þétt ef þú notar ferskar aprikósur og þess vegna þarf að nota þurrkaðar.

Ásta Hrund
02. maí. 2014

Takk fyrir að deila þessari uppskrift með okkur, ég hlakka til að prufa hana :) Ég held að svona allrahanda krydd fáist ekki í Noregi (þar sem ég bý). Veistu hvort það passar að nota negul eða eitthvað annað krydd í staðinn?

sigrun
02. maí. 2014

Jú notaðu um 1/4 tsk negul og 1/4 tsk múskat í staðinn (eða 1 tsk kanil) :)

Ásta Hrund
03. maí. 2014

Takk fyrir svarið Sigrún. Gerði þessa í gær og hún er alveg rosalega góð :) Ég átti reyndar ekki apríkósur svo ég notaði meiri döðlur og rúsínur í staðinn og það heppnaðist vel :-)

sigrun
03. maí. 2014

Gaman að heyra Ásta og takk fyrir að deila með okkur :)