Gulrótarkaka (sú allra fyrsta!)

Þessi kaka er allra, allra, allra fyrsta kakan sem ég „bakaði” á ævinni og ég var orðin 24 ára!!! Ég fékk uppskriftina meðan ég var í Myndlista-og Handíðaskólanum af einni bekkjarsystur minni, Höddu Fjólu Reykdal

Ég hafði ekki borðað kökur í 12 ár (enda borðaði ég ekki sykur) og sá þessa uppskrift á korktöflunni í skólastofunni. Við í Grafíkdeildinni (8 manns) hengdum stundum upp uppskriftir og ýmislegt fleira sem okkur þótti sniðugt. Oftar en ekki var auglýsing um bjórkvöld (eða eiginlega alltaf). Eg sá aldrei hvaðan þessi uppskrift kom því hún hafði verið klippt úr blaði eða bæklingi. Það sem vakti athygli mína var að kakan var ekki með neinum hvítum sykri. Ég hugsaði með mér: Getur verið að kakan sé holl OG góð? Þar sem ég hafði ekki aðstöðu til að prufa mig áfram bakaði ég ekki kökuna þá, en geymdi samt uppskriftina. Einn daginn, nokkrum árum síðar fann ég uppskriftina í draslinu heima. Ég trítlaði heim úr Háskólanum, keypti inn í kökuna og bakaði. Hmmm árangurinn var nú ekkert til að hrópa húrra yfir (því ég ætlaði jú að baka bestu og hollustu köku í heimi).

Þessi lélegur árangur var nú kannski ekki svo undarlegur þar sem A) Þetta var fyrsta kakan mín, B) Eldhúsið á Njálsgötunni var álíka lítið og kústaskápur (alveg satt, þá gat bara ein manneskja verið að stússa þar í einu. Bara einn gat vaskað upp, og ég gat staðið í sömu sporunum ef ég þurfti að fara í ísskápinn, kústaskápinn, vaskinn, kryddhilluna og skápana. Ég gat teygt mig í allt af einum stað ég er ekki löng!!!), C) Ofninn á Njálsgötunni var he hemm frekar glataður, var á stanslausu grilli og það bara öðru megin.

Í stuttu máli þá misheppnaðist kakan því hún var svo svakalega ljót (brunnin öðru megin, skökk og skæld). En ég man eftir lyktinni góðu sem kom í litlu íbúðina og það opnaðist fyrir mér nýr heimur. Mér var eiginlega sama um kökuna ljótu því lyktin var svo góð. Þetta var svo upphafið og 6 árum síðar (og um 200 keyptum matreiðslubókum síðar) fæddist vefurinn, CafeSigrun.

Athugið að til að útbúa þessa uppskrift þurfið þið matvinnsluvél og 22 sm smelluform.

Það er líka gott að hafa í huga að kakan mýkist á 2. degi og má hita hana upp í ofninum augnablik til að fá hana eins og nýbakaða.


Gulrótarkakan (allra fyrsta kakan sem ég bakaði)

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án glúteins

Gulrótarkaka (sú allra fyrsta!)

Gerir 1 köku

Innihald

 • 125 g döðlur, saxaðar gróft
 • 250 ml eplasafi
 • 350 g gulrætur, skrældar og rifnar á rifjárni
 • 75 g cashewhnetur, þurrristaðar og malaðar
 • 50 g heslihnetur, þurrristaðar, afhýddar og malaðar
 • 120 g haframjöl
 • 1 msk kanill
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1,5 tsk vanilludropar

Aðferð

 1. Saxið döðlurnar gróft og setjið í pott. Hellið eplasafanum yfir og sjóðið döðlurnar í 15-20 mínútur.
 2. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af.
 3. Þurrristið cashewhneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til þær fara að ilma.
 4. Setjið hneturnar í matvinnsluvél og blandið í 5-7 sekúndur eða þangað til frekar gróft saxaðar. Setjið í skál.
 5. Bætið vanilludropum, salti og kanil út í skálina ásamt haframjölinu og gulrótunum.
 6. Hellið vökvanum af döðlunum (geymið hann) og maukið þær í matvinnsluvélina í nokkrar sekúndur (eða stappið með gaffli).
 7. Setjið út í stóru skálina og hrærið vel. Bætið eins miklu af vökvanum við, og þið þurfið. Deigið á að vera nokkuð þétt og á t.d. alls ekki að leka af skeið.
 8. Setjið bökunarpappír í 22 sm smelluform. Hellið deiginu út í og þrýstið vel niður.
 9. Bakið í ofni við 200°C í 45-60 mínútur. Ef kakan er farin að dökkna mikið undir lokin má lækka hitann aðeins eða setja álpappír yfir hana.

Gott að hafa í huga

 • Skreytið með ferskum ávöxtum (sætum, steinalausum vínberjum, bönunum mandarínum, kiwi, mangoi o.s.frv.).
 • Nota má lífrænt ræktaðar aprikósur á móti döðlunum.
 • Nota má appelsínusafa í staðinn fyrir eplasafann.
 • Gott er að bera kökuna fram með cashewhneturjóma.
 • Gera má súkkulaðikrem til að smyrja yfir kökuna.

Ummæli um uppskriftina

johanng
22. jan. 2011

Hvernig krem notarðu á hana?

sigrun
22. jan. 2011

Ha ha ég var nú ekki orðin svo 'þróuð' í þá daga né með svo mikið sjálfstraust í eldhúsinu í að ég hafi íhugað að notað nota krem á kökuna. Í dag hins vegar veit ég að þetta krem myndi t.d. passa á kökuna. Einnig myndi súkkulaðikrem (eins og kremið er á þessari köku) passa á hana.

Kveðja

Sigrún

Ása Bj
02. nóv. 2012

goðan dag Sigrún
Þar sem ég sé hvergi hvar hægt er að senda persónulegan póst til þín beint.

Þá langaði mig að benda þér á þar sem ég má ekki neyta glúteins, unnins sykurs né laktósa og var boðin þessi kaka í afmæli þar verið var að reyna að gefa mér eitthvað nýtt. Þá tók ég eftir sem betur fer áður en ég beit í hana að það væri
HAFRAMJÖL í kökunni.
Það er glútein í haframjöli.

Þannig að mig langaði að benda þér á það og biðja þig þá annað hvort að gera einhverjar ráðstafanir við því eða taka það fram að haframjölið verið að vera glúteinlaust og hægt sé að nálgast svoleiðis haframjöl, oftar en ekki í heilsu húsinu.

Gangið þér vel í öllu sem þú gerir og með von um að þú hafir það sem allra best :)
Kær kv.

sigrun
02. nóv. 2012

Sæl Ása, ég er búin að lagfæra og nú er uppskriftin merkt sem 'glúteinlaus' en 'auðvelt að gera glúteinlaust'. Þetta var bara hreinasta klaufavilla og búið að lagfæra :) Takk fyrir að láta vita :)

Ása Bj
04. nóv. 2012

:)Glæsilegt

Kær kveðja og hafðu það gott :O)
Ása Björg