Gulrótarkaka með kremi

Sumir fá sér gulrótarkökusneið á kaffihúsum af því „eitthvað með gulrótum HLÝTUR að vera hollt, ekki satt”? En nei, aldeilis ekki. Gulrótarkökur á kaffihúsum eru eitt af því óhollasta sem maður getur látið ofan í sig. Innihaldið er oftar en ekki smjör, rjómaostur, hvítt hveiti, flórsykur, sykur o.s.frv., uss uss. Þessi uppskrift hér að neðan er verulega góð OG hún er töluvert hollari enda inniheldur hún engan hvítan sykur, ekkert hvítt hveiti, ekkert smjör, engan flórsykur og engan rjómaost. Hmmm hvað ætli hún innihaldi þá eiginlega?

Athugið að geyma þarf kremið í ísskáp í um 2-3 tíma áður en maður notar það. Kakan er mun einfaldari en listinn hér að neðan gefur til kynna. Ég útskýri yfirleitt meira en minna og það er ástæðan fyrir því að kakan virkar flókin en er það alls ekki!

Þegar kakan er tilbúin og kremið komið á, sker ég kökuna yfirleitt í ferninga, set í stórt nestisbox og geymi svo í ísskápnum í 1-2 daga, Jóhannesi til mikillar gleði en þetta er ein af „uppáhaldskökunum hans í öllum heiminum” (að hans sögn).

Athugið að fyrir þessa uppskrift þurfið þið bökunarform sem er 20 x 20 sm og 2.5 sm djúpt. Athugið einnig að þið þurfið matvinnsluvél eða töfrasprota til að gera uppskriftina.


Alvöru gulrótarkaka en ekki með óhollu kremi!

Þessi uppskrift er:

 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur

Gulrótarkaka með kremi

Gerir um 12 bita

Innihald

 • 90 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 2 msk hlynsíróp
 • 2 egg
 • 1 msk kókosolía
 • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 100 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 250 g spelti
 • 1 msk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk múskat (enska: nutmeg)
 • 1,5 tsk kanill
 • 0,5 tsk negull (enska: cloves) (má sleppa)
 • Rifinn börkur af 1 lítilli appelsínu
 • 200 g gulrætur, skrældar og rifnar gróft á rifjárni
 • 175 g rúsínur

Kremið:

 • 200 g skyr
 • 2 msk hlynsíróp
 • 50 g döðlur sem eru búnar að liggja í sjóðandi heitu vatni í 20 mínútur
 • 0,5 tsk vanilludrpar

„Sírópið”:

 • 1 tsk hlynsíróp
 • 0,5 tsk vanilludropar
 • 2 msk appelsínusafi
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 50 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk

 

Aðferð

 1. Áður en þið byrjið á kökunni skuluð þið saxa döðlurnar gróft og leggja í bleyti í um 20 mínútur. Gott er að nota heitt vatn.
 2. Byrjið nú á kökunni:
 3. Skrælið gulræturnar og rífið gróft á rifjárni.
 4. Rífið appelsínubörkinn gróft á rifjárni. Gætið þess að rífa bara börkinn sjálfan, ekki hvíta hlutann.
 5. Blandið saman í skál rapadura hrásykri, hlynsírópi, eggjum, kókosolíu, vanilludroum og barnamat. Hrærið með sósupískara eða gaffli.
 6. Í stærri skál skuluð þið sigta saman spelti, lyftiduft, kanil, negul og múskat.
 7. Blandið svo appelsínuberkinum, gulrótunum og rúsínunum út í spelt skálina. Hrærið mjög vel.
 8. Blandið nú eggjablöndunni út í stóru skálina. Blandið MJÖG lauslega og alls ekki hræra (rétt að velta deiginu til) og ALLS ekki setja í hrærivél!!
 9. Klæðið bökunarformið (20 x 20 sm og 2,5 sm djúpt) með bökunarpappír. Hellið deiginu í formið og gætið þess að það fari vel í öll horn (þið getið ýtt í hornin með skeið).
 10. Bakið við 170°C í 35-40 mínútur þangað til kakan rís og er þétt viðkomu.
 11. Undirbúið nú kremið:
 12. Hellið vatninu af döðlunum og geymið vatnið. Setjið döðlur í matvinnsluvél og blandið í nokkrar mínútur. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar ef þarf og blandið áfram. Ef illa gengur að blanda döðlurnar er gott að setja nokkrar matskeiðar af döðluvatninu með. Maukið döðlurnar eins og hægt er. Einnig er gott að nota töfrasprota.
 13. Setjið skyr, hlynsíróp og vanilludropa í matvinnsluvélina og maukið vel (í nokkrar mínútur). Kremið á helst ekki að hafa neina döðlubita í.
 14. Setjið kremið í skál, plastfilmu yfir og geymið í ísskápnum í minnst 2-3 klukkustundir eða þangað til þarf að nota kremið.
 15. Búið nú til „sírópið”: Blandið saman í skál sítrónu- og appelsínusafanum, hlynsírópi og barnamatnum.
 16. Þegar kakan er komin út úr ofninum, stingið þá strax í hana alla með prjóni og setjið strax „sírópið” eins jafnt yfir og hægt er, gott er að setja ríflega því kakan dregur í sig rakann.
 17. Látið kökuna kólna og á meðan dregur hún „sírópið” í sig.
 18. Þegar kakan er alveg orðin köld, takið hana þá úr forminu og smyrjið skyrkreminu á.
 19. Ágætt er að leyfa kökunni standa í ísskáp með kreminu á í um klukkustund.
 20. Dreifið svolitlum kanil yfir kremið ef þið viljið meira kanilbragð.
 21. Skerið í 12 bita.

 

Gott að hafa í huga

 • Gott er að bæta við svolitlu af söxuðum valhnetum eða pecanhnetum í deigið.
 • Nota má aprikósur í staðinn fyrir döðlur.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
 • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
 • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

anna guðný
28. nóv. 2010

Sæl Sigrún,
Ég var að spá hvað ég gæti sett í staðin fyriri skyrið? er með mjólkuróþol.. og hvar kaupiru soyaost? :)

en annars æðisleg síða, elska hana!

sigrun
29. nóv. 2010

Sæl Anna Guðný

Þú gætir notað stíft tofu í staðinn fyrir skyr (og gott að nota svolítið kókosmjöl með).

Ég nota aldrei sojaost sjálf en hann ætti að fást í heilsubúðum og einnig í flestum stærri matvöruverslunum.

Kv.

Sigrún

Guðrún
21. jan. 2011

Sæl Sigrún

Mig langar rosalega að baka þessa, en dóttir mín er með mjólkur og sojaofnæmi, er eitthvað annað en tofu og skyr sem hægt væri að nota til að gera kremið?

Kv. Guðrún

sigrun
21. jan. 2011

Sæl Guðrún.

Þú gætir maukað döðlurnar, 150 cashewhnetur (ef dóttir þín má fá hnetur), 50 g kókosmjöl, 50 g döðlur og svolítið agavesíróp ásamt um 3 msk af kókosolíu og 1 tsk vanilludropum. Þú þarft að mauka cashewhneturnar og döðlurnar vel og svo bætirðu kókosolíunni út í ásamt agavesírópi við þangað til kremið er orðið nægilega sætt (en án þess að það verði alveg fljótandi). Svo myndirðu láta kremið stífna aðeins í ísskápnum. Þú getur meira að segja bætt kakói út í ef hún má fá svoleiðis. Þú þarft kannski að leika þér aðeins með hlutföllin þar sem ég er bara að ímynda mér hvernig kremið gæti verið, hef ekki prófað nákvæmlega þetta krem sjálf. Ef kremið verður of fljótandi má setja aðeins meira af kókosolíu út í og passa að kremið sé kalt þegar kakan er borin fram.

Kv.

Sigrún

Guðrún
22. jan. 2011

Takk kærlega fyrir, prófa þetta :)

bryndisb
19. maí. 2011

umm, hlakka til að prufa þessa :)

Berglindsn
12. okt. 2011

Sæl Sigrún,

Mér lýst rosalega vel á þessa uppskrift, en ég var að velta því fyrir mér hvort að það mætti sleppa rúsinum í deiginu og ef ekki hvort að það mætti setja eitthvað annað í staðin?

Kv. Berglind

sigrun
12. okt. 2011

Það mætti nota döðlur eða þurrkaðar aprikósur í staðinn. Athugaðu að rúsínurnar gefa raka svo hugsanlega þarftu að bæta nokkrum matskeiðum af vatni við deigið svo það verði ekki of þurrt.

Inga Sólnes
18. maí. 2017

kremið varða alltof þunnt hjá mér ! Hvað get ég gert til að þykkja það?

sigrun
18. maí. 2017

Sæl Inga. Leitt að heyra :/ Það sem þú getur gert er að setja hreinan klút ofan í sigti og kremið þar ofan í. Láttu liggja í allavega 30 mínútur og þannig lekur þynnsti vökvinn frá. Hugsanlega hafa döðlurnar verið of blautar? Láttu mig vita ef þetta gengur ekki!!