Gulrótarkaka með döðlu-aprikósukremi

Þessi gulrótarkaka er svolítið öðruvísi en maður á að venjast. Munið að í venjulegu gulrótarkökukremi fara um það bil 200 g af rjómaosti ásamt flórsykri og fleiri miður hollu. Mér finnst það algjör óþarfi þar sem skyrið er mjög fínt líka, með döðlum og apríkósum. Munið ég er ekki að gera kökur sem myndu slá í gegn á hlaðborði með óhollustukökum svo ef þið viljið dísætar, rjómasprengjur einhverjar þá eruð þið aldeilis ekki á réttum stað....og eiginlega bara rammvillt :)

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél og 24 sm bökunarform til að útbúa þessa uppskrift.

Til að flýta fyrir ykkur getið þið keypt ristaðar og afhýddar heslihnetur.

Þessi uppskrift er:

 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Gulrótarkaka með döðlu-aprikósukremi

Gerir 1 köku

Innihald

Botn

 • 400 g döðlur, saxaðar smátt
 • 500 g gulrætur, skrældar og rifnar á rifjárni
 • 60 g cashewhnetur, malaðar
 • 60 g möndlur, malaðar
 • 50 g heslihnetur, þurrristaðar, afhýddar og malaðar
 • 60 g kókosmjöl
 • 80 g haframjöl
 • 1 msk kanill
 • 1 tsk kardimommur (má sleppa)
 • 1 vel þroskaður banani, stappaður

Krem

 • 200 g hreint skyr
 • 2 tsk vanilludropar
 • 75 g döðlur, saxaðar gróft
 • 75 g aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktaðar), saxaðar gróft
 • 1 msk agavesíróp
 • 2-3 msk hreinn appelsínusafi

Aðferð

Aðferð-Botn:

 1. Saxið döðlurnar smátt.
 2. Skrælið gulræturnar og rífið á rifjárni.
 3. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af.
 4. Setjið heslihnetur, cashewhnetur og möndlur í matvinnsluvél og malið í um 30 sekúndur eða þangað til frekar smátt saxað án þess að hneturnar séu maukaðar. Setjið í skál.
 5. Afhýðið og stappið banana og setjið hann í skálina ásamt kókosmjöli, haframjöli, kanil og kardimommum. Hrærið öllu vel saman og hnoðið deigið vel saman. Bætið appelsínusafa út í ef þarf meiri vökva.
 6. Klæðið 24 sm bökunarform með bökunarpappír. Þrýstið deiginu vel ofan í formið.
 7. Bakið við 200°C í um 40-45 mínútur.
 8. Kælið

Aðferð-Krem:

 1. Saxið döðlurnar og aprikósurnar gróft og leggið í bleyti í sjóðandi heitu vatn í um 20 mínútur.
 2. Hellið öllu vatninu af (eða notið í smoothie).
 3. Setjið skyr, döðlur og aprikósur, vanilludropa og agavesíróp í matvinnsluvélina og maukið í um 1 mínútu. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og blandið áfram í 30 sekúndur. Ef kremið blandast illa eða er of stíft, setjið þá nokkrar matskeiðar af appelsínusfa út í matvinnsluvélina á meðan hún vinnur.
 4. Kælið kremið í ísskáp í um klukkutíma.
 5. Þegar kakan er orðin köld, smyrjið þá kreminu á hana.
 6. Dreifið svolitlum kanil yfir kökuna ef þið viljið meira kanilbragð.

Gott að hafa í huga

 • Í staðinn fyrir krem má skreyta kökuna með fullt af ferskum, sætum ávöxtum (t.d. kiwi, jarðarberjum, bláberjum, vínberjum, mango, bönunum) eða ristuðum hnetum.
 • Fyrir ykkur sem búið erlendis má nota gríska jógúrt eða quark í staðinn fyrir skyr.
 • Notið brúnar, lífrænt ræktaðar aprikósur í staðinn fyrir þessar appelsínugulu (sem búið er að meðhöndla með efnum til að þær líti betur út).
 • Nota má vel þroskaða peru eða mango í staðinn fyrir banana.
 • Ef þið eruð jurtaætur (enska: vegan) eða með mjólkuróþol getið þið notað stíft tofu í staðinn fyrir skyr.