Gulrótarbrauð

Þetta brauð er seðjandi og hollt, inniheldur bæði vítamín og trefjar. Það er ægilega gott alveg sjóðandi heitt úr ofninum með osti ofan á. Eða mér finnst það best svoleiðis. Gætið þess að deigið verði ekki of blautt svo að brauðið verði ekki óbakað að innan.

Þessi uppskrift er:

 • Án eggja
 • Án hneta

Gulrótarbrauð

Gerir 1 brauð

Innihald

 • 200 g spelti
 • 1 msk vínsteinslyftiduft
 • 85 g gulrætur, skrældar og rifnar fínt
 • 90 g kotasæla
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 msk kókosolía
 • Vatn eftir þörfum (100-150 ml). Gæti þurft meira eða minna
 • 2 msk graskersfræ (má sleppa)

 

Aðferð

 1. Skrælið gulræturnar og rífið þær fínt á rifjárni.
 2. Blandið spelti, vínsteinslyftidufti og salti saman í stóra skál.
 3. Bætið kotasælunni, gulrótunum og kósosolíunni út í skálina ásamt vatni eftir þörfum.
 4. Hrærið varlega og alls ekki of mikið (svona 8-10 sinnum). Gætið þess að deigið sé ekki of blautt. Ágætt er að miða við að deigið leki ekki af sleif en sé þó ekki það þurrt að hægt sé að hnoða það mikið.
 5. Klæðið lítið brauðform að innan með bökunarpappír og hellið deiginu í formið.
 6. Bakið við 200°C í um klukkustund.
 7. Dreifið graskersfræjunum yfir brauðið.

Gott að hafa í huga

 • Það er gott að bera fram þetta brauð með kotasælu, osti, pestó og allskonar áleggi.
 • Til að fá harða skorpu allan hringinn, takið þá brauðið úr forminu og leggið það á hvolf á bökunarplötuna síðustu 10-15 mínúturnar.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  Nota má aðra olíu en kókosolíu t.d. repjuolíu.

Ummæli um uppskriftina

santa
06. feb. 2011

Ég er ný búin að uppgötva þetta brauð, og eftir þá uppgötvun þá er ég búin að gera það nokkrum sinnum, og það kom mér á óvart hvað það er fljótlegt að gera það. Ég tek það úr ofninum þegar það eru svona ca 15 min eftir til að fá skorpu allan hringinn og syni mínum 8 ára finnst "híðið" mjööög gott :) Þetta brauð er mjög gott með grænmetis pottréttum.

sigrun
06. feb. 2011

Gaman að heyra og gott að fá ábendingu um með hverju það passar best :)