Gulrótar- og ávaxtadrykkur

Gulrætur eru yfirfullar af A vítamíni (Beta Carotene) ásamt B1, B3, B6, fólinsýrum og kalíum (potassium) og þær innihalda einnig járn. Gulrætur örva meltinguna og virka einnig hreinsandi á innvolsið í okkur. Það góða við svona safa er að maður er að fá ofsalega mikið af hollustu án þess að líkaminn þurfi að reyna á sig við að brjóta matinn niður. Svona drykkir eru því eins og vítamínsprautur! Perur og aprikósur/nektarínur eru ekki síðri vítamínbomba en gulrætur! Best er að nota safapressu (og einnig þarf blandara) til að útbúa uppskriftina. Það er þó ekki nauðsynlegt að nota safapressu því hægt er að kaupa gulrótarsafa.


Hollur og seðjandi gulrótardrykkur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Gulrótar- og ávaxtadrykkur

Fyrir 2

Innihald

  • 200 ml kaldur gulrótarsafi úr heilsubúð (eða úr safapressu)
  • 1 aprikósa, vel þroskuð, afhýdd, steinhreinsuð og söxuð gróft
  • 1 pera, vel þroskuð, afhýdd, kjarnhreinsuð og söxuð gróft

Aðferð

  1. Ef þið eigið safapressu skuluð þið pressa gulrótina. Þið þurfið 200 ml af gulrótarsafa.
  2. Afhýðið peruna og aprikósuna, fjarlægið steina og saxið gróft.
  3. Setjið í blandarann ásamt 50 ml af gulrótarsafa. Blandið í um 5 sekúndur.
  4. Bætið afganginum af gulrótarsafanum saman við og blandið í um 5 sekúndur.
  5. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Bæta má hreinum eplasafa eða perusafa til helminga við gulræturnar til að fá smá tilbreytingu. Einnig er gott að bæta engiferi út í.
  • Nota má nektarínu í staðinn fyrir aprikósu.