Grísk tzatziki ídýfa
Þetta er fín ídýfa t.d. með brauði en einnig er gott að nota hana með alls konar grilluðum mat. Jafnvel væri hægt að nota ídýfuna í mezze sem er eins konar samheiti yfir marga smárétti í Miðjarðarhafslöndum t.d. Grikklandi og Tyrklandi þ.e. svona eins konar smáréttahlaðborð með fullt af girnilegum réttum. Uppáhalds mezze staðurinn okkar í London er Gallipoli sem er á Upper Street nálægt Angel lestarstöðinni í London. Frábær staður (svo vinsæll að hann er á þremur stöðum í sömu götu og þeir heita Gallipoli, Gallipoli Again (Bistro) og þriðji staðurinn er Gallipoli Bazaar). Þessi staður er tyrkneskur, drungalegur með reykelsislykt og algjörlega ofhlaðinn af tyrknesku dóti. Allur matur er heimatilbúinn þ.e. unninn á staðnum, hræódýr og GEÐVEIKISLEGA góður. Ef þið farið til London þá VERÐIÐ þið að prufa Gallipoli.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Grísk tzatziki ídýfa
Innihald
- 1 agúrka
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 100 g hreint skyr, hrært (einnig má nota fitulaust, grískt jógúrt)
- 100 ml hrein jógúrt eða AB mjólk
- 2-4 hvítlauksgeirar (mér finnst betra að nota minna)
- 2 msk ólífuolía
- Nokkrar ólífur til skreytingar
Aðferð
- Rífið agúrkuna gróft á rifjárni og setjið svo í sigti.
- Stráið svolitlu salti yfir og setjið eitthvað þungt ofan á eins og t.d. þunga súpuskál sem passar í sigtið og niðursuðudós þar ofan í.
- Látið standa í a.m.k. 30 mínútur, ýtið ofan á súpuskálina öðru hvoru.
- Hrærið skyr og jógúrt saman í skál.
- Pressið hvítlaukinn út í.
- Hrærið agúrkunum út í ásamt pipar og ólífuolíu.
- Smakkið til með pipar og salti.
- Kælið dálitla stund og berið síðan fram í skál.
- Skreytið með ólífum og smá slettu af ólífuolíu.
Gott að hafa í huga
- Nota má ferskt krydd eins og steinselju eða coriander í staðinn fyrir hvítlaukinn.
- Ef þið eruð með mjólkuróþol má nota sojajógúrt.
Ummæli um uppskriftina
10. des. 2016
Rosalega góð í t.d barnaafmælið með öllu grænmetinu.