Grilluð grænmetissamloka

Þessi er nú einföld en engu að síður bragðgóð og með alveg hellings grænmeti. Það er upplagt að nota afgangana úr ísskápnum í vikulok, í eina svona grillaða. Það er ekki oft sem ég nota spelt ciabatta brauð en það hentar vel í þessa uppskrift. Ef þið þolið ekki ger, getið þið keypt gerlaust samlokubrauð úr heilsubúð eða annað brauð sem ykkur þykir gott. Mikilvægt er að brauðið geti haldið öllu innihaldinu á meðan það grillast.

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Grilluð grænmetissamloka

3-4 samlokur

Innihald

  • 4 spelt ciabatta/pítubrauð/langlokubrauð
  • 2 msk grænt pestó
  • 5 msk 5% sýrður rjómi (án gelatíns, frá Mjólku)
  • 1 lítill kúrbítur, skorinn í grófa strimla
  • 3-4 grillaðar paprikur í krukkum (úr heilsubúð)
  • 6 sveppir, sneiddir þunnt
  • 4 sólþurrkaðir tómatar (ekki í olíu), skornir í þunnar lengjur
  • 4 kirsuberjatómatar, skornir í helminga
  • 50 g mozzarella, sneiddur þunnt
  • 50 g magur ostur, rifinn
  • Smá klípa svartur pipar eftir smekk
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt) ef þarf

Aðferð

  1. Hrærið saman pestói og sýrðum rjóma og setjið til hliðar.
  2. Skerið kúrbítinn í strimla (óþarfi er að skræla hann). Grillið kúrbítinn í efstu rim í ofninum (setjið bökunarpappír á bökunarplötu) við 200°C í um 10 mínútur.
  3. Skerið paprikuna langsum, fræhreinsið og skerið í 4 lengjur. Setjið paprikurnar í eldfast mót og grillið í efstu rim við 220°C í um 20-25 mínútur eða þangað til skinnið fer að bólgna og verða svart. Látið paprikurnar í plastpoka í 5 mínútur og lokið fyrir. Hreinsið svo hýðið af og fleygið.
  4. Sneiðið sveppina þunnt og steikið í svolitlu vatni á pönnu. Saltið og piprið eftir smekk.
  5. Skerið kirsuberjatómatana í helminga.
  6. Skerið sólþurrkaða tómatana í mjóar lengjur.
  7. Rífið magra ostinn á rifjárni og sneiðið mozzarella ostinn í þunnar sneiðar.
  8. Skerið brauðin í tvennt langsum og hreinsið megnið af mjúka brauðinu innan úr.
  9. Smyrjið pestómaukinu innan í.
  10. Raðið 2 helmingum af kirsuberjatómötum á hvern botn, nokkrum strimlum af kúrbít, sólþurrkuðum tómötum í strimlum, paprikum, sveppum, osti og mozarella-osti.
  11. Saltið og piprið eftir smekk.
  12. Hitið í góðu samlokugrilli (helst með þungu loki) þangað til osturinn fer að bráðna og brauðið er grillað.

Gott að hafa í huga

  • Það er að sjálfsögðu hægt að nota alls kyns grænmeti í stað þessa sem er talið hér að ofan t.d. eggaldin, ferskar paprikur, ólífur, maískorn svo dæmi sé nefnt.
  • Best er að kaupa gerlaus spelt ciabatta ef þið finnið slík brauð (í heilsubúðum eða bakaríum).
  • Í staðinn fyrir sýrðan rjóma má nota majones.
  • Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo). Þerrið með eldhúsþurrku.
  • Nota má sojaost í staðinn fyrir mozzarella og magran ost.
  • Nota má rautt pestó í staðinn fyrir grænt.