Grillaðir kartöflubátar með guacamole og salsa

Það er voðalega freistandi fyrir marga að leggjast í snakkát um helgar..fá sér tortillaflögur með quacamole og salsa! Það er svo sem skiljanlegt að fólk vilji gera vel við sig öðru hvoru en málið er að við erum ekki að hugsa vel um okkur þegar við kaupum quacamole, salsa og kartöfluflögur út í búð... Það er mikið af fitu, sykri, aukaefnum, bragðefnum, bindiefnum o.fl. í þessarri samsetningu (svona yfirleitt) og afleiðingin er oft líkamleg vanlíðan (eftir á) og andleg (fyrir suma!).&;Eftirfarandi uppskrift&;er holl útgáfa af þessarri samsetningu, með heimatilbúnu guacamole og salsa. Það eru engin aukaefni, enginn hvítur sykur og ekkert rugl.... Þetta er alveg svakalega léttur matur og sérlega hollur. Eins og þið sjáið hérna fyrir neðan er matseldin ekki flókin og innihaldslýsingin ekki löng, bara kartöflur, smá olía og salt! Gott er að vera búin að búa til guacamole og salsa deginum áður til að flýta fyrir (og freistast ekki til að kaupa óholla útgáfu). Í versta falli má kaupa guacamole og salsa úr heilsubúð.

Athugið að einnig er mjög gott að grilla kartöflubátana og borða þá eintóma sem snarl.


Hollir kartöflubátar með salsa og guacamole.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Grillaðir kartöflubátar með guacamole og salsa

Fyrir 2 sem forréttur

Innihald

 • 2 x 150 g kartöflur (helst bökunarkartöflur)
 • 1 tsk kókosolía blandað saman við 1 tsk vatn
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

 1. Bakið kartöflurnar á bökunarpappír (án þess að skera þær neitt, bara eins og þær koma úr jörðinni) við 180-200°C í 45-60 mínútur.
 2. Takið kartöflurnar úr ofninum, kælið í 5 mínútur og skerið þær MJÖG varlega í báta með beittum hnífi. Passið ykkur því þær eru MJÖG heitar og hýðið vill brotna.
 3. Hreinsið allt nema um 5 millimetra af kartöflukjötinu innan úr.
 4. Leggið bátana (hýðismegin) niður.
 5. Penslið bátana með kókosolíu.
 6. Saltið og piprið (eða kryddið með öðru kryddi sem ykkur finnst gott).
 7. Bakið í 20 mínútur til viðbótar eða þangað til kartöfluhýðin eru farin að dökkna mikið á endunum (og næstum því brenna).
 8. Berið fram með guacamole og salsa.

Gott að hafa í huga

 • Gott er að krydda með alls konar kryddi t.d. Töfrakryddinu eða Best á allt frá Pottagöldrum.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.