Grillað brauð með tómatsósu, gulrótum og osti

Samsetningin, þ.e. gulrætur, tómatsósa og ostur hljómar kannski fáránleg en hún er líka fáránlega góð! Þessi réttur er hið fullkomna snarl í miðri viku því hann er fljótlegur og einfaldur og kostar heldur ekki mikið. Hann er líka upplagður fyrir krakka bæði að búa til og borða því flestir krakkar elska tómatsósu! Þetta er líka fín leið til að koma C vítamínum ofan í kroppinn bæði á börnum jafnt sem fullorðnum. Í tómötum eru líka andoxunarefni sem eru nauðsynleg svona í skammdeginu (og reyndar alltaf). Þessi réttur er afrískur þó ótrúlegt megi virðast en hann er úr bókinni Safari Kitchen sem ég held mikið upp á. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það að nota ekki venjulega tómatsósu.....hún er yfirleitt mjög óholl. Ég nota lífrænt framleidda tómatsósu t.d. frá Himneskri hollustu, hún er mjög góð. Þið getið notað hana eða einhverja aðra sem ykkur líst vel á og er án aukaefna, bragðefna, sykurs eða annars sem skemmir fyrir okkur. Þetta brauð er líka æðislegt sem forréttur t.d. á undan grillmat og passar einhverra hluta vegna vel með fiskréttum.

Diskinn á myndinni keypti ég í rykugri antíkverslun í Stone Town, Zanzibar. Diskurinn er meira en 100 ára gamall og á hann eru rituð 4 nöfn af 99 nöfnum Allah. Konan sem seldi mér diskinn tók af mér loforð um að ég myndi ekki nota hann sem öskubakka. Ég var fljót að lofa henni því (enda er nákvæmlega ekkert heimskulegra en að reykja sígarettur). Diskurinn er yfirleitt notaður í húsum fólks til að draga fram meiri gæfu o.s.frv. Ég verð bara að vona að konan sé sátt við að diskurinn sé notaður undir grillaða brauðið mitt og ég krossa fingur um að engin ógæfa fylgi brauðinu.

Athugið að ég nota heimatilbúið snittubrauð en nota má annað brauð sem ykkur þykir gott.


Diskurinn sem brauðið er á, er frá Tanzaníu og er ævaforn

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Grillað brauð með tómatsósu, gulrótum og osti

Fyrir 2

Innihald

  • 10 sneiðar af snittubrauði eða öðru brauði
  • 2 stórar gulrætur, rifnar á rifjárni
  • 150 g magur ostur, rifinn
  • 4-5 msk holl tómatsósa
  • Smá klípa salt (Himalaya salt eða sjávarsalt)
  • 1 tsk svartur pipar (eða eftir smekk)

Aðferð

  1. Útbúið snittubrauðið.
  2. Afhýðið gulræturnar og rífið á rifjárni. Setjið gulræturnar í meðalstóra skál.
  3. Rífið ostinn og setjið út í skálina.
  4. Bætið tómatsósunni og salti/pipar eftir smekk út í skálina. Hrærið öllu vel saman.
  5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
  6. Skerið brauðið í sneiðar og leggið á bökunarpappírinn.
  7. Dreifið maukinu jafnt á brauðsneiðarnar.
  8. Bakið efst í ofninum við 200°C í um 15 mínútur eða þangað til osturinn er farinn að bráðna.
  9. Berið fram heitt.

Gott að hafa í huga

  • Minnkið saltið og piparinn ef þið búið til brauðið fyrir börn.
  • Hollar tómatsósur fást yfirleitt í heilsubúðum eða eru í hillum heilsudeilda í matvöruverslunum. Tómatsósan frá Himneskri hollustu er afbragðsgóð.
  • Sneiðarnar eru líka góðar kaldar í nesti og þær má frysta til að hita upp síðar.