Graskers- og bananamuffins

Ég átti smá afgang af graskeri úr annarri uppskrift sem ég hafði verið að undirbúa og hugsaði með mér að ég vildi nú endilega nota það (ég hendi aldrei, aldrei mat). Mér varð hugsað til þess hversu langt er liðið að jólum nú í nóvember og fannst fullkomið að búa til ilmandi og svolítið kryddaða graskersmuffinsa. Þeir eru bara nokkuð góðir og að sjálfsögðu töluvert hollari en venjulegir muffinsar. Þeir eru líka fullir af beta carotene sem er andoxunarefni, C vítamíni og trefjum. Ef mann langar að bjóða fólki upp á eitthvað annað en jólakökur og smákökur í kringum jólahátíðina, þá eru þessir upplagðir. Ég er alveg að sjá fyrir mér á Þorláksmessumorgun að baka þessa og drekka óáfengt jólaglögg með.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél og muffinsbökunarform (ég nota silicon).

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Graskers- og bananamuffins

Gerir 10-12 stykki

Innihald

  • 400 g grasker eðe butternut squash (þyngd reiknuð fyrir verkun)
  • 200 g spelti
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 2 tsk kanill
  • 1 tsk múskat (enska: nutmeg)
  • 2 msk kókosolía
  • 1 msk agavesíróp
  • 1 egg
  • 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 1 stór banani, vel þroskaður
  • 75 g valhnetur eða pecanhnetur, saxaðar (má sleppa)

Aðferð

  1. Afhýðið og fræhreinsið graskerið og skerið það í grófa bita.
  2. Saxið valhneturnar frekar smátt.
  3. Setjið graskerið í pott, látið vatn fljóta vel yfir og látið graskerið sjóða í um 15-20 mínútur þangað til það er orðið mjúkt.
  4. Hellið vatninu af graskerinu og látið það kólna.
  5. Setjið graskerið í matvinnsluvél og maukið vel.
  6. Í stóra skál skuluð þið sigta saman spelti, lyftidufti, negul, kanil og salti. Hrærið vel.
  7. Setjið 180 g af graskersmaukinu í miðlungsstóra skál. Ef afgangur er af maukinu má frysta það og nota síðar.
  8. Maukið banana í matvinnsluvél eða stappið hann mjög vel. Bætið út í skálina með graskersmaukinu. Bætið eggi, agavesírópi og kókosolíu saman við og hrærið vel.
  9. Hellið graskersblöndunni varlega út í stóru skálina. Hrærið afar varlega, rétt svo veltið deiginu til þannig að það blandist saman (alls ekki hræra of mikið).
  10. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
  11. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
  12. Blandið hnetunum saman við og hrærið mjög varlega, rétt til að blanda öllu saman.
  13. Bakið við 180°C í 20-25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Í staðinn fyrir banana má nota lífrænt framleiddan barnamat án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk. Einnig má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.