Grænmetismauk
26. júní, 2004
Ég fann þessa uppskrift í Gestgjafanum og ég smakkaði maukið fyrst hjá Önnu Stínu mágkonu minni. Við kláruðum maukið upp til agna. Það hentar vel ofan á brauð, ofan á hrískökur og sem meðlæti með ýmsum mat t.d. grillmat.
Uppskriftin inniheldur pestó en fyrir ykkur sem eruð að bjóða t.d. vinum eða ættingjum með hnetuofnæmi, í mat er gott að vita að pestó inniheldur furuhnetur sem margir hafa ofnæmi fyrir.
Athugið að best er að nota matvinnsluvél til að mauka sólþurrkuðu tómatana en þið getið notað blandara (en þá getur þurft meiri vökva).
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Grænmetismauk
Gerir um 500 ml
Innihald
- 1 grænt epli, afhýtt og saxað smátt
- 1 rauðlaukur, afhýddur og skorinn smátt
- 3 meðalstórar gulrætur, rifnar eða skornar smátt
- 3 tómatar, kjarninn fjarlægður og tómatarnir saxaðir smátt
- 3 hvítlauksrif, pressuð
- 120 g sólþurrkaðir tómatar (ekki í olíu), maukaðir í matvinnsluvél
- 35 g grænt pestó, lífrænt framleitt
- 1 msk dijon sinnep
- 1 msk ólífuolía
- 50 g sesamfræ, ristuð
- Handfylli af steinselju, saxaðri
- Smá klípa svartur pipar
- 1/4 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
Aðferð
- Afhýðið epli, gulrætur og rauðlauk og saxið smátt.
- Kjarnhreinsi tómatana (með teskeið) og saxið smátt.
- Pressið hvítlauksrifin.
- Þurrristið sesamfræin á heitri pönnu (án olíu) í 1 mínútu.
- Setjið sólþurrkuðu tómatana í matvinnsluvél og maukið ásamt ólífuolíunni, sinnepinu og pestóinu.
- Setjið allt í stóra skál ásamt sesamfræjum og steinselju.
- Blandið öllu vel saman og látið standa í um 30 mínútur svo bragðið „taki sig".
Gott að hafa í huga
- Grænmetismaukið er gott með hummus og ferskum salatblöðum á beyglur, hrískökur, brauð o.fl.
- Gott er að nota papriku með (t.d. rauða eða appelsínugula).
- Nota má svört sesamfræ í staðinn fyrir ljós.
- Nota má aðra olíu en ólífuolíu t.d. avocadoolíu, repjuolíu eða hnetuolíur hvers konar.
- Ef þið hafið hnetuofnæmi getið þið sleppt pestóinu.
- Gott er að saxa svartar eða grænar ólífur út í maukið til tilbreytingar.
- Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo).
- Maukið geymist í nokkra daga í kæli, í lokuðu íláti.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024