Grænmetisborgarar án lauks

Mig vantaði uppskrift að einhverju sem var ekki of sterkt, ekki með lauk eða hvítlauk, eða tómötum því við vorum að fá mömmu og pabba mat. Hvorugt þeirra borðar sterkan mat og mamma borðar ekki ofangreint grænmeti. Ég gróf upp þessa uppskrift sem ég átti sem var með lauk og hvítlauk en tók út og setti kjúklingabaunir, sellerí og kartöflur í staðinn. Svo bætti ég við karríi, cumin og osti og útkoman var bara fínir grænmetisborgarar. Athugið að auðvitað má setja hvítlauk og lauk saman við ef þess er óskað. Það má einnig skipta út venjulegum osti fyrir sojaost fyrir þá sem hafa mjólkuróþol.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur

Grænmetisborgarar án lauks

Gerir 20 borgara

Innihald

 • 500 g gulrætur, skrældar og rifnar
 • 60 g grænar baunir, frosnar
 • 250 g kjúklingabaunir í dós, sigtið vökvann frá
 • 2 stórar kartöflur, skrældar og soðnar
 • 1 stilkur sellerí
 • 2 egg
 • 2 eggjahvítur
 • 50 g magur ostur, rifinn
 • 50 g kartöflumjöl (eða spelti)
 • 1,5 tsk karrí
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 0,5 tsk pipar
 • 0,25 tsk chili pipar
 • 0,5 tsk cumin (ekki kúmen)

Aðferð

 1. Skrælið gulrótina og rífið.
 2. Sjóðið kartöflurnar þangað til vel soðnar og kælið svo. Stappið kartöflurnar vel.
 3. Saxið selleríið mjög smátt.
 4. Setjið kjúklingabaunirnar út í og stappið vel.
 5. Rífið ostinn.
 6. Setjið gulrætur og kartöflur í stóra skál og hrærið vel saman.
 7. Hrærið eggjum og eggjahvítum saman ásamt ostinum. Bætið út í stóru skálina og hrærið vel.
 8. Bætið grænu baununum út í skálina og hrærið vel saman.
 9. Blandið saman karríi, chilii, cumin, salti, pipar og kartöflumjöli og setjið út í stóru skálina. Hrærið öllu vel saman.
 10. Ef blandan er blaut, bætið þá meira af kartöflumjöli (og svolitlu salti) út í.
 11. Setjið stóru skálina í ísskáp og látið standa í 30 mínútur.
 12. Búið til frekar litla og ekki of þykka borgara í höndunum.
 13. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið borgarana á plötuna.
 14. Bakið við 180°C í um 20 mínútur. Snúið borgurunum við og bakið áfram í 10 mínútur eða  þangað til borgararnir eru orðnir gullnir.

Gott að hafa í huga

 • Upplagt er að frysta borgarana og grípa með sér í nesti, þeir bragðast vel kaldir. Það er einnig upplagt að taka þá með sér í útileguna til að hita upp á grillinu.
 • Það má setja alls kyns grænmeti í þessa borgara eins og t.d. maískorn,papriku,  lauk, hvítlauk, tofu, hrísgrjón, bygg o.fl.
 • Velta má borgurunum upp úr sesamfræjum áður en þeir eru bakaðir.
 • Með grænmetisborgurunum er gott að bera fram tamarisósu (eða sojasósu), hýðishrísgrjón eða bygg ásamt salati.
 • Einnig er gott er að bera fram hvítlauksjógúrtsósu með þessum borgurum.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

kgeirs
16. júl. 2013

Þessi uppskrift hefur vakið mikla lukku hjá átta ára barnabarni sem er með glúteinóþol og á grænmetisfæði. Við sleppum þó chilí. Borgararnir eru fínir í nestissamloku á leikjanámskeiðið. Takk fyrir! amma K

sigrun
16. júl. 2013

Það gleður mig að heyra það, takk fyrir að deila með okkur :)

R. Harðar
17. feb. 2014

þessi buff hafa gert stormandi lukku á mínu heimili
þekkjum þetta með glutenóþolið sem og fæðuofnæmi mjög vel
takk fyrir okkur

sigrun
17. feb. 2014

Gott og gaman að heyra :)