Grænmeti í grænu karrímauki og kókossósu

Bragðgóð, ódýr og góð máltíð, mitt á milli grænmetissúpu og grænmetisrétts með sósu. Maður getur notað alls kyns grænmeti sem maður á ísskápnum (upplagt með haustinu þegar við erum að pota upp okkar eigin grænmeti) og svo getur maður notað núðlur til að drýgja matinn eða soðið hýðishrísgrjón/bygg með. Ég kaupi alltaf lífrænt framleitt grænt karrímauk úr heilsudeildum matvörubúða (eða úr heilsubúð). Maður getur gert sitt eigið sjálfur en svona getur maður sparað sér tíma. Þessi lífrænt framleiddu kryddmauk eru líka bara ansi bragðgóð. Athugið að karrímauk getur innihaldið rækjumauk (enska: shrimp paste) og ef þið eruð jurtaætur (enska: vegan) passið þá að velja karrímauk án rækjumauks. Athugið að magn karrímauks í uppskriftinni fer eftir styrkleika þess, prófið ykkur bara áfram. Sum karrímauk geta verið ansi sterk og þá verður maður að nota minna.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Grænmeti í grænu karrímauki og kókossósu

Fyrir 2-3

Innihald

  • 1 sæt kartafla, afhýdd og söxuð frekar gróft
  • 1 laukur, saxaður frekar smátt
  • 2-5 msk grænt, thailenskt karrímauk (magn fer eftir styrkleika mauksins sem og smekk ykkar)
  • 1 tsk kókosolía
  • Hálf rauð paprika, sneidd í grófa strimla
  • 4 portabella sveppir, saxaðir frekar gróft
  • 6 þurrkuð kaffir lime blöð (má sleppa)
  • 250 ml vatn
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • 400 ml kókosmjólk
  • 2 tsk agavesíróp
  • 2 msk límónusafi
  • Rifinn börkur af einni límónu

Aðferð

  1. Afhýðið laukinn og saxið frekar smátt.
  2. Skrælið sætu kartöfluna og saxið frekar gróft.
  3. Hitið kókosolíuna í stórum potti.
  4. Bætið lauknum út í pottinn ásamt karrímaukinu. Byrjið á 2 msk því karrímauk getur verið afar, afar sterkt.
  5. Bætið vatninu og grænmetisteningnum út í.
  6. Saxið sveppina frekar gróft.
  7. Skerið paprikuna í helming, fræhreinsið og saxið í grófa strimla.
  8. Bætið sveppunum og paprikunni við og sjóðið í 5 mínútur eða þangað til grænmetið fer að linast.
  9. Hrærið vel í þessu til að grænmetisteningurinn leysist upp.
  10. Hellið kókosmjólkinni út í og lækkið hitann. Látið malla í 5 mínútur.
  11. Bætið lime blöðunum út í ásamt sætu kartöflunni, látið malla í 10 mínútur eða þangað til kartöflubitarnir eru orðnir mjúkir.
  12. Rífið límónubörkinn fínt.
  13. Bætið agavesírópinu, límónusafanum og berkinum út í súpuna.
  14. Smakkið til með meira karrímauki.
  15. Hitið vel og berið fram.
  16. Berið fram með hýðishrísgrjónum eða byggi.

Gott að hafa í huga

  • Einnig er gott að sjóða t.d. hrísgrjóna- eða sobanúðlur (úr bókhveiti) og setja út í. Setjið þær þá út í allra síðast, rétt áður en maturinn er borinn fram.
  • Í staðinn fyrir portabello sveppi má nota aðra stóra sveppi.
  • Í staðinn fyrir sveppi má nota eggaldin (enska: eggplant/aubergine).
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.

Ummæli um uppskriftina

Hrundski
07. mar. 2011

Ég mæli með að nota ferskan kóríander útá þetta í lokin.... og vel af honum mmmmmmmmmmmm svoooo gott

sigrun
07. mar. 2011

Mmmmm svo sammála...Jóhannes myndi aftur á móti aldrei fyrirgefa mér ef ég bætti ferskum coriander út á....hann hatar coriander :)

Sirrry
10. jún. 2014

Mmmm hlakka til að smakka þessa a eftir , oh hvað eg elska vefsiðuna þina Sigrun klikkar aldrei ef manni vantar goðar hugmyndir :)

sigrun
10. jún. 2014

Vona að bragðist vel, takk :)