Græni ísinn

Þessi ís er ofsalega hollur og góður. Svo er hann ljómandi fallegur á litinn svona fagurgrænn!! Það er ekki alltaf sem ísinn kemst alla leið í frystinn því blandan sjálf er svo fáránlega góð. Þessi ís var virkilega vanmetinn þegar hann gekk undir nafninu „avocadoís” og hann varð fyrir miklum fordómum. Enda ekki svo furðulegt þar sem maður tengir avocado ekki við ís. En ég hvet ykkur til að prófa því ekki aðeins er ísinn mjólkurlaus, hnetulaus, og eggjalaus heldur hentar hann jurtaætum (enska: vegan), tilheyrir hráfæði og hentar börnum sérstaklega vel. Hann inniheldur holla fitu og prótein og er seðjandi og góður í maga. Þessi græni og góði ís er eiginlega allt það sem venjulegur, óhollur ís er ekki, og meira til.

Athugið að þið þurfið annað hvort matvinnsluvél eða blandara til að útbúa ísinn. Einnig er mikilvægt að nota vel þroskaða banana.


Allt er vænt sem vel er grænt

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan
 • Hráfæði

Græni ísinn

Gerir um 500 ml

Innihald

 • 4 bananar, mjög vel þroskaðir 
 • 2 avocado, vel þroskuð
 • 100 ml agavesíróp
 • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Aðferð

 1. Afhýðið bananana og skerið í stóra bita.
 2. Afhýðið avocadoin, fjarlægið steinana og saxið gróft.
 3. Setjið í matvinnsluvél og maukið í um 10 sekúndur eða þangað til vel blandað saman.
 4. Hellið agavesírópinu út í ásamt vanilludropunum og maukið í 10 sekúndur til viðbótar eða þangað til flauelismjúkt.
 5. Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 30 mínútur og setjið svo í plastbox. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
 6. Ef ekki er notuð ísvél:
 7. Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið út frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Endurtakið þangað til erfitt er orðið að hræra í blöndunni.
 8. Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.

Gott að hafa í huga

 • Það er frábært að búa til kaldan mjólkurþeyting (smoothie) úr ísnum. Látið um 250 ml af ísnum þiðna pínulítið og setjið í blandara. Bætið um 250 ml af sojamjólk (eða hrísmjólk, haframjólk eða undanrennu) saman við og bragðbætið með t.d. meira af agavesírópi.
 • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.

Ummæli um uppskriftina

skotthildur
08. des. 2010

Jemundur minn hvað þessi ís er góður!!!
Hefði aldrei trúað því eins vænn og grænn hann nú er ;)Hann er reyndar ekki alveg orðinn fullfrystur ennþá en ég smakka vel á honum í hvert skipti sem ég hræri ísnálarnar úr, nammiiiii!

sigrun
09. des. 2010

Hann er einmitt þannig að hann nær eiginlega aldrei að frjósa, maður er endalaust að borða af honum :)