Fylltar pönnukökur (crepes) með hvítlaukssósu, shiitake sveppum og spínati

Þetta hráefni átti ég til í ísskápnum og ég hafði fryst pönnukökur nokkrum vikum áður. Ég tók pönnukökurnar úr frystinum og útbjó þennan fína rétt. Það er nefnilega um að gera að frysta nokkrar pönnukökur til að eiga í svona framkvæmdir. Maður nennir ómögulega að baka þær bara til að útbúa mat inn í þær og ef maður á þær í frysti er maður enga stund að henda í fína máltíð. Mér finnst svona pönnukökur með fyllingu ferlega góðar og það er reglulega gaman að bera þær fram t.d. í matarboði. Athugið að pönnukökurnar verða frekar stökkar þegar þær eru bakaðar því þær eru ekki stútfullar af fitu. Athugið einnig að ef þið eruð að baka pönnukökur (þessar venjulegu) er gott að taka frá þessar fyrstu, þykku og ljótu sem maður bakar, og frysta þær í svona „crepes” (fylltar pönnukökur).

Þessi uppskrift er:

  • Án hneta

Fylltar pönnukökur (crepes) með hvítlaukssósu, shiitake sveppum og spínati

Fyrir 3-4

Innihald

Pönnukökur:

  • 1 bolli spelti
  • 1 msk vínsteinslyftiduft
  • 1 egg
  • 1 bolli sojamjólk (einnig má nota haframjólk, möndlumjólk, hrísmjólk eða undanrennu)
  • 1 msk kókosolía og smá til viðbótar á pönnuna

Fylling:

  • 2 dl soðið bygg (0,5 dl ósoðið)
  • 150 g ferskir shiitake sveppir (eða aðrir bragðmiklir sveppir), saxaðir smátt
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 100 g ferskt eða frosið spínat. Ef frosið, látið þiðna og kreistið vatnið úr því
  • 100 g magur ostur, rifinn
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Hvítlaukssósa:

  • 3 msk 5% sýrður rjómi (án gelatíns, frá Mjólku)
  • 4 msk AB mjólk
  • 1 hvítlauksgeiri marinn (eða hvítlaukssalt)
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt), sleppið ef notað er hvítlaukssalt
  • 0,5 tsk steinselja

Aðferð

  1. Byrjið á pönnukökunum:
  2. Blandið spelti og vínsteinslyftidufti saman í skál.
  3. Hrærið saman eggi og sojamjólk og hellið út í speltið.
  4. Bætið kókosolíu saman við og hrærið vel.
  5. Hitið pönnu (á um það bil næst hæsta hitastigi) og setjið 1 tsk kókosolíu á pönnuna. Það gæti þurft að lækka á hitanum ef pannan verður mjög heit.
  6. Bakið 6-8 frekar þykkar pönnukökur (setjið eina ausu á pönnuna mjög snöggt, þekjið pönnuna og hellið afganginum af deiginu aftur ofan í skálina með deiginu í, á að taka um 7 sekúndur í allt). Athugið ef göt koma strax í pönnukökuna þegar þið setjið deigið á pönnuna, þá er pannan of heit og skal lækka aðeins á hitanum.
  7. Næst skuluð þið undirbúa fyllinguna:
  8. Byrjið á því að sjóða byggið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Setjið svo til hliðar.
  9. Afhýðið rauðlaukinn og saxið smátt.
  10. Rífið ostinn gróft.
  11. Steikið sveppina upp úr vatni og saltið. Setjið til hliðar.
  12. Bætið spínatinu saman við og steikið þangað til allur vökvi er nánast farinn úr spínatinu. Setjið til hliðar.
  13. Steikið rauðlaukinn í nokkrar mínútur upp úr vatni.
  14. Hrærið saman í stórri skál, lauk, spínati, sveppum, grjónum og osti.
  15. Að lokum skuluð þið hræra saman því sem á að fara í hvítlaukssósuna:
  16. Hrærið saman sýrðum rjóma, AB mjólk, hvítlauk, steinselju og salti
  17. Hrærið hvítlaukssósunni saman við byggið.
  18. Skiptið fyllingunni á milli pönnukakanna. Rúllið pönnukökunum upp í böggla (eða í sívalninga) og leggið í eldfast mót sem búið er að klæða með bökunarpappír (óþarfi er að smyrja mótið).
  19. Bakið við 180°C í 12-15 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með salati og jafnvel meira af sinnepssósunni.
  • Frysta má pönnukökurnar, með fyllingunni, eftir að þær hafa kólnað.
  • Fylltar pönnukökur eru frábærar í nestisboxið, kaldar jafnt sem heitar.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Nota má heilhveiti í staðinn fyrir spelti.
  • Nota má hýðishrísgrjón í staðinn fyrir bygg.

Ummæli um uppskriftina

Drífa Gar'arsdóttir
09. mar. 2011

Sæl Sigrún er hægt að nota glúteinlaust hveiti í þessar pönnukökur og ef svo er hvað mælir þú með að nota ?

sigrun
09. mar. 2011

Ég hef ekki gert þessar tilteknu vefjur glúteinlausar en ég á hérna uppskrift að glúteinlausum vefjum sem þú gætir prófað?

Glúteinlausar vefjur
gerir 8 stykki

  • 175 g hrísgrjónamjöl
  • 75 g kartöflumjöl
  • 25 g tapioca mjöl
  • 2 msk agavesíróp
  • 1,5 tsk xanthan gum (fæst í heilsubúðum)
  • 1 tsk salt
  • 220 ml heitt vatn
  1. Hrærið hrísgrjónamjöli, kartöflumjöli, tapioca mjöli og salti saman í stórri skál.
  2. Hrærið saman agavesíróp, xanthan gum og heitu vatni. Hellið út í stóru skálina og hnoðið vel saman (gott að nota hrærivél og deigkrók). Mótið 8 kúlur úr deiginu.
  3. Fletjið hverja kúlu vel út í hring með 25 sm þvermál (gott að nota bökunarpappír undir). Setjið á disk og setjið plast eða bökunarpappír á milli þeirra.
  4. Hitið pönnu í meðalhita og setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið pönnuna að innan. Hitið hverja köku í um 1-2 mínútur á hvorri hlið.
  5. Kökurnar má frysta. Best er að setja þær beint á pönnu/í ofn/í örbylgju úr frystinum.

Kveðja
Sigrún