Fylltar pönnukökur (crepes) með grænmeti og byggi
Hver hefur ekki prófað franskar pönnukökur („crepes”)? Unaðslegur, en oft óhollur matur. Þessar eru ekkert ósvipaðar alvöru pönnukökunum nema það er ekkert smjörbragð af grjónunum og sinnepssósan er mjög fitulítil. Ég nota magran ost líka. Þegar ég geri venjulegar pönnsur geri ég aðeins fleiri en ég þarf og nota svo í þennan rétt (sleppi þá vanilludropunum og kaffinu). Þegar grjónablandan er svo tilbúin set ég blönduna í hverja pönnuköku og baka aðeins inn í ofni. Pönnsurnar verða aðeins stökkar en mér finnst það ekkert verra. Það er upplagt að frysta pönnukökur og nota síðar í þennan rétt, það sparar mikinn tíma. Einnig hef ég fryst pönnukökur með fyllingu og hitað upp síðar, alltaf jafn gott. Uppskriftin virkar nokkuð flókin en er það alls ekki svo lengi sem maður er búinn að búa til pönnukökurnar og jafnvel sinnepssósuna áður. Sinnepssósan geymist í meira en viku í kæli og pönnukökurnar eins og áður sagði er hægt að geyma í frysti. 

Franskar pönnukökur með grænmeti og byggi innan í.
Þessi uppskrift er:
- Án hneta
Fylltar pönnukökur (crepes) með grænmeti og byggi
Innihald
Pönnukökur
- 1 bolli spelti
- 1 msk vínsteinslyftiduft
- 1 egg
- 1 bolli sojamjólk
- 1 msk kókosolía
Fylling
- 2 dl soðið bygg (bankabygg) eða hýðishrísgrjón
- 100 g sveppir, saxaðir frekar smátt
- 7 vorlaukar, sneiddir þunnt
- 2 hvítlauksrif, marin
- 0,5 tsk karrí
- 1 rauð eða gul paprika í bitum
- 100 g magur oftur, rifinn
- 10 svartar ólífur, sneiddar
- Fjórðungur kúrbítur (enska: courgette/zucchini), saxaður
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 0,5 tsk pipar
Sinnepssósa
- 4 msk sætt sinnep (alveg róleg, það er enginn viðbættur sykur)
- 1 tsk sinnepsfræ, brún (eða gul)
- 2 tsk agavesíróp
- 3 msk 5% sýrður rjómi (án gelatíns, frá Mjólku)
- 4 msk AB mjólk
Aðferð
- Byrjið á pönnukökunum:
- Blandið spelti og vínsteinslyftidufti saman í skál.
- Hrærið saman eggi og sojamjólk og hellið út í speltið.
- Bætið kókosolíu saman við og hrærið vel.
- Hitið pönnu (á um það bil næst hæsta hitastigi) og setjið 1 tsk kókosolíu á pönnuna. Það gæti þurft að lækka á hitanum ef pannan verður mjög heit.
- Bakið 6-8 frekar þykkar pönnukökur (setjið eina ausu á pönnuna mjög snöggt, þekjið pönnuna og hellið afganginum af deiginu aftur ofan í skálina með deiginu í, á að taka um 7 sekúndur í allt). Athugið ef göt koma strax í pönnukökuna þegar þið setjið deigið á pönnuna, þá er pannan of heit og skal lækka aðeins á hitanum.
- Næst skuluð þið undirbúa fyllinguna:
- Byrjið á því að sjóða byggið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Setjið svo til hliðar.
- Sneiðið eða saxið sveppina smátt.
- Sneiðið vorlaukana þunnt.
- Afhýðið hvítlaukinn og merjið.
- Skerið paprikuna í helminga og fræhreinsið. Saxið fjórðung paprikunnar smátt.
- Saxið kúrbítinn smátt.
- Sneiðið ólífurnar frekar þunnt.
- Rífið ostinn gróft.
- Steikið sveppina, ólífurnar, kúrbítinn, hvítlaukinn og vorlaukinn á pönnu. Notið vatn til að steikja upp úr og kryddið með karríi og salti.
- Setjið byggið, sveppina, vorlaukinn, paprikuna og ostinn í stóra skál. Hrærið vel.
- Að lokum skuluð þið hræra saman því sem á að fara í sinnepssósuna:
- Hrærið saman sýrðum rjóma, AB mjólk, sinnepi, sinnepsfræjum og agavesírópi.
- Hrærið sinnepssósunni saman við byggið.
- Skiptið fyllingunni á milli pönnukakanna. Rúllið pönnukökunum upp í böggla (eða í sívalninga) og leggið í eldfast mót sem búið er að klæða með bökunarpappír (óþarfi er að smyrja mótið).
- Bakið við 180°C í 12-15 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með salati og jafnvel meira af sinnepssósunni.
- Frysta má pönnukökurnar, með fyllingunni, eftir að þær hafa kólnað.
- Fylltar pönnukökur eru frábærar í nestisboxið, kaldar jafnt sem heitar.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Nota má heilhveiti í staðinn fyrir spelti.
- Nota má hýðishrísgrjón í staðinn fyrir bygg.
- Sætt, hreint sinnep fæst í flestum matvöruverslunum (er dökkgult, svolítið sætt en er ekki með viðbættum sykri).
Tengdar uppskriftir
Fylltar pönnukökur (crepes) með byggi og sinnepssósu
Fylltar pönnukökur (crepes) með hvítlaukssósu, shiitake sveppum og spínati
Franska súkkulaðikakan hennar Lísu
Bakaður byggréttur með spínati, hvítlauk og sveppum
Pítu-pizzur (nokkrar útgáfur)
Speltpizza með grænmeti, heimalagaðri pizzasósu og mozzarella
Ummæli um uppskriftina
29. ágú. 2011
Þetta var æðislega gott. Töfraði þetta fram á 40 min, svo þetta þarf nú ekki að taka langan tíma.
En viðbrögðin á mínu heimili voru frábær, sonurinn 2.5 fannst þetta mjög gott og 7 ára dóttur mín borðaði þetta með bestu lyst (hún er sko ekki hrifin af of hollum mat). Svo líður manni svo agalega vel núna:)
29. ágú. 2011
Frábært að heyra, sérstaklega að börnin hafi verið ánægð, þau eru oft harðir dómarar :)
15. mar. 2015
Þessar pönnukökur hafa verið fastur liður á matseðlinum hjá okkur lengi. Hef þær oft ef ég fæ óvænta gesti og slá þær alltaf í gegn. Ég hef reyndar aldrei prófað þær með byggi en nota hýðishrísgrjón/quinoa eða blöndu af þeim. Nota svo það grænmeti sem til er hverju sinni en sósan segja mennirnir mínir, verður að vera. Kærar þakkir fyrir að deila þessari uppskrift með okkur.
16. mar. 2015
Frábært að heyra Heiða og takk fyrir að láta vita, reglulega gaman :)