Fyllt eggaldin
4. maí, 2004
Þetta er mjög fínn réttur til að búa til í miðri viku því hann er fljótlegur, ódýr en um leið saðsamur. Nota má hýðishrísgrjón eða bygg í staðinn fyrir pasta.
Þessi uppskrift er:
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Fyllt eggaldin
Fyrir 3-4
Innihald
- 225 g ósoðið speltpasta (eða hýðishrísgrjón/bygg)
- 2 stór eggaldin (enska: eggplant/aubergine) eða 3 minni
- 1 stór laukur, saxaður gróft
- 2 hvítlauksgeirar, marðir
- 1 msk kókosolía
- 400 g saxaðir tómatar (ferskir eða í dós)
- 2 tsk oregano
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) og smá klípa svartur pipar
- 30 g magur ostur, rifinn
- 45 g mozarella ostur (magur ef hann er til) skorinn í mjög þunnar sneiðar eða rifinn
- 15 g parmesan ostur, helst ferskur
- 5 msk brauðmylsnur, spelti eða heilhveiti (gott er að nota gróft hrökkbrauð og mala í matvinnsluvél)
Aðferð
- Sjóðið pastað í 8-10 mínútur eða þangað til það er næstum tilbúið, sigtið, kælið með köldu vatni og setjið til hliðar.
- Skerið eggaldin í helminga (lárétt), hreinsið innan úr þeim með beittum hnífi, án þess þó að skemma hýðið.
- Skafið kjötið úr og saxið.
- Afhýðið lauk og hvítlauk. Saxið laukinn gróft og hvítlaukinn smátt (eða merjið hann).
- Hitið kókosolíu í potti. Steikið laukinn í um 5 mínútur eða þangað til hann er orðinn mjúkur. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
- Bætið hvítlauknum við og hitið í 1 mínútu.
- Bætið saxaða eggaldinkjötinu út í.
- Bætið tómötunum og oregano kryddinu út í og smakkið til með salti og pipar.
- Látið suðuna koma upp og leyfið þessu að malla í um 10 mínutur eða þangað til blandan fer að þykkna.
- Bætið pastanu út í og hrærið vel í 2 mínútur.
- Raðið eggaldin helmingunum á bökunarpappír (hýðið á að snúa niður).
- Setjið helminginn af pastablöndunni í hverja skel.
- Skerið mozarella ostinn í þunnar sneiðar eða rífið. Rífið einnig magra ostinn sem og parmesan ostinn.
- Raðið mozarella sneiðunum ofan á.
- Setjið afganginn af pastablöndunni ofan á.
- Blandið saman brauðmylsnunni, magra ostinum og parmesan ostinum og dreifið yfir.
- Bakið í ofni við 200°C í 25-30 mínútur eða þangað til eggaldinkjötið er orðið mjúkt og osturinn bráðinn.
Gott að hafa í huga
- Einnig má nota magran brauðost (11%) í staðinn fyrir mozarella.
- Parmesan ostinn má einnig minnka, notið þá meira af brauðosti í staðinn.
- Nota má sojaost í staðinn fyrir venjulegan ost ef þið hafið mjólkuróþol eða eruð jurtaætur.
- Nota má maískorn, paprikur og sveppi í fyllinguna.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
04. nóv. 2011
eggaldin