Frosnir bananar með súkkulaði og ídýfu

Hafið þið séð þættina Arrested Development? Fyrir ykkur sem hafa ekki séð þessa snilldarþætti þá er mikið fjallað um „The Frosen Bananastand” sem er sölubás sem selur frosna banana og ídýfur. Mig langar ALLTAF í svoleiðis þegar ég horfi á þættina og ákvað með sjálfri mér að ég ætlaði að prófa hvort ég gæti ekki útbúið svona girnilega, frosna banana. Ég sem sagt frysti banana og dýfði honum ofan í bráðið mjólkursúkkulaði, lífrænt framleitt með hrásykri (má nota dökkt). Þetta var snilldargott…. Kannski ekki fallegasti eftirmatur í heimi en hann hvarf MJÖG hratt ofan í gesti.

Athugið að dökkt súkkulaði getur innihaldið mjólk svo skoðið innihaldið ef þið hafið mjólkurofnæmi.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta
 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Frosnir bananar með súkkulaði og ídýfu

Fyrir 2-3

Innihald

 • 2 bananar (mátulega þroskaðir þ.e. ekki orðnir blettóttir og heldur ekki grænir)
 • 100 g ljóst eða dökkt súkkulaði, lífrænt framleitt, með hrásykri
 • Ídýfa (t.d. kókosmjöl, saxaðar hnetur, möndluflögur, kakónibbur o.fl.)

Aðferð

 1. Afhýðið bananana og pakkið í plastfilmu.
 2. Frystið bananana í 1 klukkutíma (þannig að þeir verði svolítið harður en ekki eins og gler).
 3. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina.
 4. Takið skálina úr vatnsbaðinu og setjið fyrir framan ykkur á borðið.
 5. Setjið ídýfu í skálar (kókosmjöl, saxaðar hnetur o.fl.) og setjið fyrir framan ykkur á borðið.
 6. Takið bananana úr frystinum og skerið hvern banana í 4-5 bita (mega vera færri og stærri bitar, eftir smekk).
 7. Haldið í endann á hverjum bita og dýfið ofan í súkkulaðið. Notið skeið til að dreifa vel upp eftir öllum bitanum.
 8. Dýfið bitanum ofan í það sem þið viljið helst þ.e. kókosmjöl, hnetur o.s.frv.
 9. Setjið bananabitann á disk og endurtakið með hina bitana.
 10. Setjið bitana í frystinn í um 10 mínútur.
 11. Geymist í 1-2 sólarhringa í ísskápnum (en frystið aðeins áður en bitarnir eru bornir fram).
 12. Berið fram kalt en ekki gaddfrosið.
 13. Áður en þið berið bitana fram er gott að skera endann af bitanum af (þann enda sem sést í bananann því hann verður orðinn brúnn).

Gott að hafa í huga

 • Nota má carob í staðinn fyrir súkkulaði.
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.