Drykkir

Síða 2 af 3

Drykkir, drykkir, drykkir. Það er fátt betra en góður drykkur í glasi (og þá er ég að meina ávaxta- og eða grænmetisdrykkur). Ég er hrifin af þykkum drykkjum (með hnetugrunni) en ég er líka mjög hrifin af söfum sem eru nýpressaðir. Við búum svo vel hér í London að á öðru hverju götuhorni er góður safabar (djúsbar). Við erum afar dugleg að grípa með okkur glös af þessum undramjöðum sem afgreiðslufólkið töfrar fram. Drykkir geta svo sannarlega verið vítamínbúst og allir drykkirnir á þessarri síðu eiga það sameiginlegt (vonandi) að bæta, hressa og kæta!


Hálsbólgudrykkurinn fíni

Hálsbólgudrykkur

Ég krækti mér í svæsna hálsbólgu um daginn (sem er óvenjulegt því ég verð aldrei lasin) og vantaði eitthvað til að mýkja hálsinn sem var eins og sandpappír af grófleika 12.

Detoxdrykkur

Hreinsandi peru-, gulrótar- og engifersafi

Þennan hreinsandi (detox) drykk er gott að gera í safapressu en fyrir þá sem eiga ekki slíka græju er alveg hægt að mauka perurnar í blandara en þá er drykkurinn aðeins þykkari.

Hreinsandi og nærandi drykkur

Hreinsandi sítrusdrykkur

Þessi drykkur minnti mig alveg svakalega á Afríku þegar ég var að smakka hann til og sérstaklega á Kenya en þar eru appelsínur eilítið súrari en þessar sem við eigum að venjast á Íslandi.

Einstaklega hressandi og kemur á óvart

Hressandi morgundrykkur með sætri kartöflu

Þessi drykkur kemur manni af stað á morgnana. Það er smá leyniinnihald í uppskriftinni en það er sæt kartafla! Það er gaman að bjóða gestum upp á þennan drykk og leyfa þeim að giska á innihaldið.

Ískaffi

Íslatte að hætti Freysa

Ég fékk svona íslatte fyrst á kaffihúsi sem heitir Englen í Árhúsum sumarið 2006. Setið var úti í ógnarhita í garðinum bak við kaffihúsið.

Algjör járnkarl

Járnríkur aprikósudrykkur

Þurrkaðar aprikósur innihalda helling af járni og appelsínusafinn hjálpar til við upptöku járnsins í líkamanum.

Vítamíndrykkur fullur af járni

Járnríkur og hreinsandi vítamíndrykkur

Ég er sko ekkert að ýkja með því að nefna þennan drykk vítamíndrykk því hann er stútfullur af hollustu.

Vítamínríkur sellerísafi

Járnríkur sellerí-, rauðrófu- og gulrótarsafi

Þessi kemur beint af beljunni svo að segja eða réttara sagt úr bókinni Innocent smoothie recipe book: 57 1/2 recipes from our kitchen to yours og er ein af mínum uppáhalds.

Drykkurinn fíni úr jarðarberjum, bönunum og tofu

Jarðarberja- og banana tofudrykkur

Þessi drykkur er fullur af próteinum og vítamínum og er upplagður eftir ræktina eða í eftirmiðdaginn þegar mann vantar orkuskot.

Frískandi og fullur af C vítamíni

Jarðarberja- og vatnsmelónudrykkur

Þessi drykkur er í miklu uppáhaldi og það er sérstaklega áferðin sem mér finnst svo frábær því hún er loftkennd og freyðandi.

Jarðarberjadrykkur, fullur af hollustu

Jarðarberjahristingur

Vissuð þið að til eru 600 afbrigði af jarðarberjum? Þetta var fróðleikskorn dagsins í boði CafeSigrun!

Mmmm kósí jólaglögg, svoo góður og hollur drykkur

Jólaglögg (óáfengt)

Ég smakkaði í fyrsta skipti jólaglögg (óáfengt að sjálfsögðu) í jólaboði hjá yfirmanni mínum í verslun sem ég vann í með skóla í mörg ár.  Ég gleymi því ekki hvað mér fannst jólaglöggið gott.

Kiwi- og bananadrykkur

Þetta var bara svona tilraun einn laugardaginn með ávexti úr ísskápnum. Saðsamur og hollur drykkur, fullur af vítamínum og skemmtilega grænn á litinn.

Sumarlegur og frískandi safi

Kiwi- og límónusafi

Þegar Jóhannes smakkaði þennan drykk sagði hann: „Þennan drykk væri ég til í að kaupa oft”.

Afar hollur og frískandi drykkur

Krækiberja- og engiferdrykkur

Þessi drykkur er ferskur og frísklegur og upplagður á haustin þegar maður á krækiber.

Mango- og appelsínudrykkur

Upplagt er að búa til þennan drykk þegar maður á mango sem er alveg að renna út á tíma! Þetta er próteinríkur drykkur, inniheldur holla fitu og er fullur af C vítamíni og trefjum í þokkabót.

Þykkur og gómsætur drykkur

Mango- og hnetusmjörsdrykkur

Ég var að nota mango og banana sem var á síðasta snúningi og úr varð alveg voðalega góður drykkur (smoothie).

Melónu- og perudrykkur

Melónu- og jógúrtdrykkur

Hreinsandi og nærandi drykkur (smoothie), fullur af vítamínum. Upplagður í morgunsárið eða að loknum krefjandi vinnudegi þegar mann langar í eitthvað sætt... en hollt.

Melónu-, peru- og ananasdrykkur

Þessi drykkur (smoothie) er einstaklega nærandi og hreinsandi því bæði melónur og perur eru trefjaríkar. Góður drykkur fyrir sál og líkama!

Mildur og góður drykkur

Mjólkurhristingur með döðlum og aprikósum

Þetta er hollur og næringarríkur drykkur sem hentar vel sem létt máltíð á daginn, ég tala nú ekki um ef maður er t.d. á kafi í námsbókunum.

Verulega hollur og góður drykkur

Möndlu-, döðlu- og engifersdrykkur

Þessi uppskrift kemur úr bók sem ég á sem heitir Healing Drinks og er hreint út sagt frábær.

Morgunmatur í glasi, góð byrjun á deginum

Morgunverður í glasi

Þessi drykkur er beint úr bókinni Innocent smoothie recipe book frá Innocent fyrirtækinu hér í London sem gerir bestu smoothie drykki í heimi (að mínu mati!!).

Ferskur og góður sumardrykkur

Myntu-, kiwi- og ananasdrykkur

Þessi uppskrift er úr bókinni Lean Food sem er úr The Australian Women’s Weekly seríunni sem ég held mikið upp á.

Myntute

Þetta er nú varla uppskrift, heldur frekar leiðbeiningar. Ég mæli með því að þið útbúið myntute enda fátt betra en myntute úr ferskum myntublöðum.

Nektarínu- og perudrykkur

Nektarínu- og perudrykkur

Perur eru trefjaríkar og fullar af C og K vítamínum. Fæstir vita að perur er sá ávöxtur sem veldur hvað minnsta fæðuofnæmi af öllum ávöxtum.