Fiskur með kókosflögum og basil

Ég hef notað frosinn þorsk í þennan rétt en það er miklu betra að nota ferskan þorsk. Er mér sagt. Ég er nefnilega hætt að borða þorsk (þið getið séð hvers vegna í uppskriftinni Þorskur í ofni). Það má nota ferska ýsu eða steinbít í staðinn. Það er ástæða fyrir því að það er svolítið mikið af „sósu” í uppskriftinni en hún er sú að það er rosa gott að bera fram hýðishrísgrjón eða bygg með fiskinum sem drekka í sig sósuna. Ef engin grjón eru borin fram má minnka léttmjólkina um 100 ml. Þessi réttur er afar magur og hollur.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur

Fiskur með kókosflögum og basil

Fyrir 3-4

Innihald

  • 175 g kirsuberjatómatar skornir í helminga
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 450 g ýsa (bein- og roðlaus)
  • 25 g kartöflumjöl eða spelti
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Smá klípa svartur pipar
  • 1 tsk kókosolía
  • 2 msk rautt, thailenskt karrímauk
  • 1 msk fiskisósa (Nam Plah)
  • 250 ml léttmjólk eða undanrenna
  • 2 msk kókosflögur
  • 20 fersk basil blöð, skorin í ræmur eða rifin

Aðferð

  1. Afhýðið hvítlaukinn og saxið smátt.
  2. Skerið kirsuberjatómatana í helminga.
  3. Skerið fiskinn í meðalstóra bita (ég miða við 4 bita á hvert flak eða svo).
  4. Setjið kartöflumjölið í skál og kryddið með salti og pipar. Veltið bitunum í mjölinu og þekið vel.
  5. Hitið kókosolíu á stórri pönnu. Setjið fiskinn á pönnuna og hitið í 3-4 mínútur. Ef vantar meiri vökva á pönnuna notið þá vatn.
  6. Blandið saman hvítlauk, karrímauki, fiskisósu og mjólk.
  7. Hellið blöndunni yfir fiskinn og hitið að suðu.
  8. Bætið tómötunum við og látið krauma í 5 mínútur (gætið þess að ofhita ekki því þá fara steinarnir að leka út úr tómötunum).
  9. Dreifið basil blöðunum yfir og kókosflögunum yfir og hrærið varlega svo að fiskurinn fari ekki í sundur.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að hafa grjón með þessum mat og þá helst hýðishrísgrjón. Einnig er gott að nota bygg.
  • Nota má annan fisk en ýsu, t.d. má nota þorsk, steinbít eða lúðu.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.
  • Rautt karrímauk (thailenskt) er hægt að fá í flestum heilsubúðum sem og stærri matvöruverslunum. Gætið þess bara að sé ekki msg (monosodium glutamate, E-600 efni eða sykur í innihaldinu. Kaupið helst lífrænt framleitt mauk. Athugið að þau geta verið afar bragðsterk og geta innihaldið rækjumauk. Ef þið eruð jurtaætur (enska: vegan) eða með ofnæmi fyrir sjávarafurðum þurið þið að lesa innihaldið vel.

Ummæli um uppskriftina

hugrunos
31. mar. 2011

Ég gerði þennan í gær og hann er alveg svakalega góður. "Örugglega besti fiskréttur sem ég hef smakkað" sagði kallinn :)

sigrun
31. mar. 2011

Gaman að heyra að ykkur líkaði rétturinn vel, hann er í miklu uppáhaldi hér líka :)

Edda Njálsdóttir
31. maí. 2011

þessi er bragðgóður en ég var með -red curry paste frá Thai choice- sem gerði hann full sterkan, mundi þá mæla með minna magni en 2 msk

sigrun
01. jún. 2011

Já það borgar sig að fara varlega með kryddmaukin þau eru misjafnlega sterk

Védís
08. ágú. 2011

Æðislegur réttur, vorum að ljúka við síðasta bitann. Ég notaði organic balti curry paste, rautt. Gerði eflaust það sama og hið thailenska átti að gera. Takk fyrir mig :)

sigrun
09. ágú. 2011

Mmmm hefur örugglega verið gott að nota organic balti curry paste. Held að flest öll karrímauk passi vel í réttinn :)

Þórdís Erla Ólafsdóttir
29. jan. 2014

Hæhæ :) er í lagi að sleppa karrímaukinu ef maður er með óþol fyrir karrí?

sigrun
29. jan. 2014

Hmmm yfirleitt get ég fundið eitthvað annað í réttina til að nota í staðinn en í þessu tilviki myndi ég telja að það sé nokkuð nauðsynlegt að nota karrímaukið. Það kemur ekki neitt í staðinn :( Eða réttara sagt, ef þú notar t.d. tómatmauk, hvítlauk, lauk og eitthvað meira, þá yrði það ekki alveg eins?