Fiskur með kartöflum og grænmeti

Þessi uppskrift kemur úr bæklingi sem heitir Næring ungbarna og er gefin út af Manneldisráði og Miðstöð heilsuverndar barna. Nokkuð skotheld uppskrift og má breyta hlutföllum og grænmeti að vild. Þessi uppskrift er upplögð fyrir börnin þegar þau eru farin að borða með fjölskyldunni því ekki þarf að matreiða fiskinn sérstaklega fyrir ungbarnið, aðeins þarf að taka frá bita barnsins áður en maturinn er saltaður eins og kemur fram í bæklingnum.

Athugið að skammtastærðin er einungis viðmið. Sum börn þurfa meira og önnur minna. Einnig getur skipt miklu máli hvort barn er byrjað að skríða og hreyfa sig, varðandi hversu mikið það borðar.
 

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Fiskur með kartöflum og grænmeti

Gerir 6-8 skammta

Innihald

 • 200 g ýsa eða annar nýr fiskur, beinhreinsaður
 • 150 g gulrætur, spergilkál (brokkolí) eða blómkál, gufusoðið
 • 1 kartafla, gufusoðin
 • 1 tsk kókosolía (eða önnur olía) eða smjör
   

Aðferð

 1. Skrælið gulrætur og kartöflur og þvoið. Saxið gróft.
 2. Þvoið spergilkál eða blómkál og brjótið í sprota.
 3. Gufusjóðið grænmetið í 7-8 mínútur eða þangað til nánast mjúkt.
 4. Bætið fiskinum út í pottinn og gufusjóðið áfram í 5 mínútur.
 5. Stappið fiskinn og grænmetið í soðinu og svolitlu smjöri eða olíu. Gætið þess vel að engin bein séu í fiskinum. Fyrir yngri börn má stappa matinn meira (og jafnvel mauka aðeins með töfrasprota). Fyrir börn sem eru nær 12 mánaða má skilja eftir bita sem eru svipaðir að stærð og t.d. grænar baunir (eða eins og börnin ykkar ráða við en gætið þess að bitarnir séu ekki of stórir til að koma í veg fyrir að þeir standi ekki í hálsi þeirra).

Gott að hafa í huga

 • Frysta má matinn. Gætið þess að hita matinn alveg í gegn við endurhitun. Hitið matinn ekki oftar en einu sinni eftir að hann kemur úr frysti.
 • Gott er að frysta maukið í ísmolabox. Setjið svo molana í góða frystipoka. Merkið pokana með innihaldi og dagsetningu. Í góðum frysti geymist frosinn barnamatur í nokkra mánuði.
 • Börn eiga misjafnlega auðvelt með að kyngja mat svo bætið við meira af soðvatni ef ykkur finnst það henta.
 • Nota má kjúkling eða lambakjöt í staðinn fyrir fisk.