Espressosúkkulaðikaka

Þessi kaka getur nánast vakið mann upp frá roti. Enda er hún ekki ætluð fyrir börn heldur fullorðna eingöngu. Undirbúa þarf kremið með dagsfyrvara því hneturnar þurfa að liggja í bleyti í um 8 klukkustundir. Best er að nota öflugan blandara eða matvinnsluvél til að áferðin á kreminu verði silkimjúk. Kakan dugar fyrir um 15-20 manns. Þið þurfið 23 cm form með lausum botni en einnig má gera helmingi minni uppskrift og nota þá minna form. Mjög mikilvægt er að við undirbúning séu hráefnin við stofuhita en ekki köld. Þægilegast er að nota tilbúið cashewhnetumauk en annars má leggja hneturnar í bleyti í 8 klst ef þið hafið tíma og mauka þær svo (án vatnsins). Athugið að kakan er óbökuð en hún er ekki hráfæðiskaka nema maður útbúi espressoið kalt og noti hrátt kakó.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Espressosúkkulaðikaka

Eina köku

Innihald

Botn

  • 140 g möndlumjöl
  • 50 g döðlur, mjúkar
  • 55 g kakó
  • Smá klípa salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
  • 1 tsk vanilludropar úr heilsubúð
  • 2-3 msk appelsínusafi
  • 1 msk kókosolía

Fylling

  • 240 g cashewhnetumauk
  • 1 msk malað kaffi (má sleppa)
  • 125 ml hlynsíróp
  • 65 ml espresso
  • 60 ml vatn eða kaffi (eða meira espresso fyrir sterkara kaffibragð)
  • 2 tsk vanilludropar úr heilsubúð
  • 70 g kakó 
  • 125 ml kókosolía

Súkkulaðikrem 

  • 125 ml hlynsíróp
  • 100 g kakó
  • 2 tsk vanilludropar
  • Smá klípa salt (Himalaya- og sjávarsalt) 
  • 125 ml kókosolía
  • Kakónibbur til að skreyta með (má sleppa)

Aðferð

Byrjið á að útbúa botninn:

  1. Steinhreinsið döðlurnar og setjið í matvinnsluvél ásamt möndlumjöli, kakói og salti.
  2. Blandið í um eina mínútu. Bætið vanilludropum og kókosolíu út í og blandið áfram.
  3. Ef deigið festist ekki saman þegar þið klípið það saman milli fingranna skuluð þið bæta appelsínusafanum út í. Blandið í um 10 sekúndur.
  4. Þrýstið deiginu í botninn á 23 cm formi með lausum botni.
  5. Setjið í ísskápinn. Þrífið matvinnsluvélarskálina lauslega. 

Nú skuluð þið útbúa fyllinguna:

  1. Setjið cashewhnetumaukið í matvinnsluvélina. Bætið malaða kaffinu, hlynsírópi, espresso og vatni ásamt vanilludropum og kakói út í. Blandið í um 30 sekúndur á fullum krafti eða þangað til blandan er silkimjúk.
  2. Skafið hliðar skálarinnar og blandið aftur í nokkrar mínútur. Á meðan vélin vinnur skuluð þið hella kókosolíunni út í.
  3. Takið botninn úr ísskápnum og hellið fyllingunni yfir. Frystið í um 1-2 klukkustundir. Óþarfi er að þrífa matvinnsluvélarskálina.

Að síðustu skuluð þið útbúa súkkulaðikremið:

  1. Setjið hlynsíróp, kakó, vanilludropa og salt í matvinnsluvélarskálina og blandið í nokkrar sekúndur. Skafið hliðar skálarinnar og blandið aftur í nokkrar sekúndur. Á meðan vélin vinnur skuluð þið hella kókosolíunni út í.
  2. Takið kökuna úr frystinum, leyfið henni að jafna sig aðeins á borðinu og hellið eða smyrjið kreminu yfir.
  3. Dreifið kakónibbum þar ofan á og kælið í ísskáp. Berið kökuna fram kalda en ekki frosna. 

Gott að hafa í huga

  • Nota má möndlumauk eða hnetusmjör í staðinn fyrir cashewhnetumaukið en bragðið verður auðvitað ekki eins. 
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má agavesíróp í staðinn fyrir hlynsíróp.