Epla- og hveitiklíðsmuffins

Þessi uppskrift var aftan á hveitiklíðspakka sem ég keypti einhvern tímann. Mjög holl og góð (með smá breytingum auðvitað), og upplagt að nota epli sem eru farin að láta aðeins á sjá. Muffinsarnir eru trefjaríkir og pakkfullir af C vítamíni og henta vel í nestisboxið þegar mann langar í eitthvað sætt.


Ljúffengir epla og hveitiklíðsmuffinsar

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án hneta

Epla- og hveitiklíðsmuffins

Gerir 12 muffins

Innihald

 • 2 sæt epli, skræld og skorin í litla bita
 • 60 gr rúsínur
 • 200 ml hreinn eplasafi 
 • 1,5 msk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 300 g spelti
 • 2,5 tsk vínsteinslyftiduft
 • 0,25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 2 tsk kanill
 • 0,5 tsk múskat (enska: nutmeg)
 • 25 g hveitiklíð
 • 125 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 2 eggjahvítur
 • 110 gr rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 2 msk agavesíróp
 • Svolítið af haframjöli til að setja ofan á hvern muffins (má sleppa)

Aðferð

 1. Skrælið eplin, kjarnhreinsið og skerið í litla bita. Setjið eplabitana og rúsínur í skál og hellið eplasafa og vanilludropum saman við. Látið liggja í bleyti í 15 mínútúr.
 2. í stóra skál skuluð þið sigta saman spelti, lyftiduft, múskat, kanil og salt. Hrærið vel saman og bætið hveitiklíðinu saman við.
 3. Í aðra skál skuluð þið hræra saman barnamat, rapadura hrásykri, barnamat, eggjahvítum og agavesírópi. Hellið út í skálina með eplabitunum og hrærið. Hellið nú öllu út í stóru skálina. Hrærið í deiginu með gafli og hrærið bara lítið og rétt veltið deiginu til. Deigið á að vera mjög gróft og kekkjótt til að muffinsarnir verði ekki þungir.
 4. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
 5. Bakið við 200 °C í 15-20 mínútur. Ef muffinsarnir eru mjög mjúkir skuluð þið baka aðeins lengur.

Gott að hafa í huga

 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
 • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
 • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
 • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

barbietec
21. jún. 2011

*mmmmm* gef þessum klárlega góða einkunn!

Datt í hug hvort það væri gott að setja möndlubita út í *pæl*

hér eru blogg um tilraunabaksturinn hjá mér

http://www.barbietec.com/subpage2.php?BloggID=3540

p.s það væri gaman að geta gefið uppskriftunum einkunnir :) Nema kannski allar yrðu með fimm stjörnum af fimm þannig að það kannski tekur því ekki heheh :)

sigrun
21. jún. 2011

Það er örugglega æði að setja möndlubita út í...og ekki verra að auka kalkið, próteinið og hollu fituna með því að nota möndlur :)

Það væri líka gott að nota valhnetur eða pecanhnetur :)

Hef pælt í einkunnagjöf en ákvað að hafa ummæli í staðinn því fólk getur þannig 'lært' af því sem betur mátti fara eða eins og í þínu tilviki er einhver sem les ummælið og bætir kannski meiri kanil út í og setur möndlur... Mér finnst ég alltaf þurfa að vita ef t.d. einkunn er 3 af 5 stjörnum, hvað mátti fara betur...? Ef þú veist hvað ég meina.... :)

barbietec
21. jún. 2011

skil þig fullkomlega :)

Svana
05. júl. 2011

Hæ,

Langar rosa mikið að prófa þessa (keypti einmitt hveitiklíðpakka fyrir lööönnngu síðan). Ég hef tekið eftir að þú notar mjög oft bara eggjahvíturnar, hendir þú þá bara rauðunum? Þegar þú segir bara eggjahvítur má í staðinn setja allt eggið??

sigrun
05. júl. 2011

Já já þú getur vel notað heilt egg í staðinn. Ég nota eggjarauður í hófi. Það má líka frysta rauðurnar og nota síðar og sumir nota t.d. eggjarauður í ísgerð.&;