Einfalt salat með tahini salatsósu (dressingu)

Salöt finnst mér best ef í þeim er blanda af grænu, sætu og hráu. Mér finnst sem sagt best að blanda saman grænum blöðum, svolitlu af sætu (eins og mango, eplum, jarðarberjum, vínberjum). Einnig finnst mér gott að setja svolítið af hráu grænmeti út í (eins og gulrótum, paprikum, gúrkum, tómötum). Stundum finnst mér líka gott að setja út í salöt t.d. fetaost og ólífur. Hnetur set ég gjarnan út í til að fá skemmtilega áferð og gott bragð. Fetaost nota ég reyndar sjaldan og þegar ég nota hann, er það hreinn fetaostur án kryddolíu (sem er oft bölvuð draslolía). Svo eins og með flest salöt þá má skipta út hráefni, breyta og bæta. Salatsósan er afar ljúffeng og fljótgerð og hentar vel bæði með salötum, inn í vefjur, ofan á grænmetisborgara, með grillmat o.fl.


Einfalt, sumarlegt og litríkt salat

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta
 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Einfalt salat með tahini salatsósu (dressingu)

Fyrir 4 sem meðlæti

Innihald

Salatið:

 • 200 g blandað salat (t.d. Lambhagasalat, eikarlauf, klettasalat o.fl.)
 • 1 rauð paprika
 • Fjórðungur mango, vel þroskað
 • Fjóðungur agúrka
 • Hálft avocado, vel þroskað (má sleppa)
 • 2 msk hreinn fetaostur (ekki í olíu)
 • 10-15 svartar ólífur
 • Ein lúka pecanhnetur

Tahini salatsósan:

 • 2 msk tahini (sesammauk)
 • 50 ml hreinn appelsínusafi
 • 1 msk tamarisósa
 • 1 tsk tabasco sósa (eða piparsósa (hot pepper sauce))
 • 1 tsk hrísgrjónaedik (eða annað edik sem ykkur finnst gott)

Aðferð

 1. Byrjið á því að undirbúa salatsósuna: Blandið saman tahini, appelsínusafa, tamarisósu, tabasco sósu (setjið nokkra dropa fyrst og bætið svo við meiru ef þið þolið) og hrísgrjónaediki í litla skál. Hrærið mjög vel með sósupískara þangað til kekkjalaust.
 2. Geymið við stofuhita þangað til á að bera salatsósuna fram (hún stífnar annars í kæli).
 3. Skolið salatblöðin og setjið á stóran disk eða í skál.
 4. Skerið paprikuna í tvennt, fræhreinsið og skerið í frekar þunnar og litlar sneiðar.
 5. Skerið gúrkuna í þunnar sneiðar og svo aftur í helminga.
 6. Afhýðið mangoið og skerið í litla bita (álíka stóra og sykurmola).
 7. Afhýðið avocadoið og skerið í bita.
 8. Myljið pecanhneturnar með fingrunum eða saxið frekar smátt.
 9. Blandið öllu sem á að fara í salatið vel saman.
 10. Berið salatsósuna fram sér.

Gott að hafa í huga

 • Nota má grænar ólífur í staðinn fyrir svartar.
 • Nota má annan lit af paprikum í staðinn fyrir rauðar.
 • Einnig má nota rifnar gulrætur, melónur, kirsuberjatómata o.fl. í salatið.
 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að hún inniheldur hveiti.
 • Hægt er að útbúa salatsósuna með nokkurra daga fyrirvara og taka svo sósuna út nokkrum klukkustundum áður en á að nota hana.

Ummæli um uppskriftina

mamma.melkorka
30. des. 2010

Hljómar vel, er auðvelt að breyta þessu sallati í máltíð?

sigrun
30. des. 2010

Ég hef ekki prófað það Melkorka en þú getur bætt t.d. kjúklingi eða lambakjöti (í bitum) í salatið til að gera það matarmeira. Eins geturðu bætt grilluðu grænmeti saman við.