Einfaldur grænmetisréttur í ofni

Þessi réttur er bæði einfaldur, hollur og ódýr (alltaf góð blanda). Hann er einmitt fullkominn þegar maður á smá grænmeti í ísskápnum, nokkur egg, ost í frystinum (eða ísskápnum) og afgangs pasta, hrísgrjón eða bygg. Rétturinn er einnig prótein-, kalk-, og trefjaríkur en samt fitusnauður (ef maður notar magran ost). Upplagður námsmannamatur í miðri viku, nú eða fyrir fjölskylduna…. þetta er nefnilega svona réttur sem öllum finnst góður, líka börnunum!


Einfaldur og hollur grænmetisréttur í ofni

Þessi uppskrift er:

  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur

Einfaldur grænmetisréttur í ofni

Fyrir 2-3

Innihald

  • 85 g pastarör eða skrúfur úr spelti
  • 1 blaðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar (miðjan notuð þ.e. hvíti endinn og blöðin ekki notuð)
  • 85 g frosnar, grænar baunir
  • 85 g frosið maískorn (má nota úr dós)
  • 1 rauð paprika, fræhreinsuð og skorin í sneiðar eða bita
  • 1 egg
  • 2 eggjahvítur
  • 20 ml sojamjólk
  • 60 g magur ostur (einnig má nota sojaost)
  • 2 msk parmesan ostur (má sleppa)
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • Smá klípa steinselja
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt) og svartur pipar
  • 0,5 tsk kókosolía
  • 1 lítri vatn

Aðferð

  1. Skerið blaðlaukinn í sneiðar.
  2. Skerið paprikuna í helminga, fræhreinsið og skerið í sneiðar eða bita.
  3. Setjið grænmetisteninginn í pott með vatninu. Látið suðuna koma upp.
  4. Sjóðið paprikuna, maískorn, grænar baunir og blaðlauk í 5 mínútur.
  5. Bætið pastanu út í pottinn með grænmetinu og sjóðið í 5-7 mínútur eða þangað til næstum því tilbúið.
  6. Sigtið vökvann frá (þurfið ekki að nota hann meira). Setjið pastablönduna í stóra skál.
  7. Aðskiljið tvær eggjahvítur frá eggjarauðunum og setjið í skál ásamt einu heilu eggi. Hrærið sojamjólk út í ásamt helmingnum af ostinum.
  8. Kryddið eftir smekk (með steinselju, salti og pipar).
  9. Hellið eggjablöndunni út í pastablönduna og blandið vel saman.
  10. Smyrjið eldfast mót (sem tekur rúmlega 1 lítra) með kókosolíu (dýfið eldhúspappír ofan í kókosolíu og nuddið eldfasta mótið að innan).
  11. Hellið blöndunni allri í eldfasta mótið.
  12. Dreifið afganginum af ostinum yfir réttinn ásamt parmesan ostinum.
  13. Bakið við 180°C í 20 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Nota má bygg eða hýðishrísgrjón í staðinn fyrir pasta.
  • Nota má alls kyns grænmeti í réttinn eins og t.d. kúrbít, rauðlauk, sveppi, o.fl.
  • Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað sojaost.
  • Ef þið hafið glúteinóþol getið þið notað glúteinlaust pasta.
  • Réttinn má frysta ef þið notið bygg eða hrísgrjón.
  • Hægt er að nota bygg eða hrísgrjón í staðinn fyrir pasta.
  • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu í s

Ummæli um uppskriftina

Kristín Sigurgeirsdóttir
19. sep. 2011

Sæl Sigrún, takk fyrir allar frábæru uppskriftirnar þínar. Ég leita oft til þín, er með ofnæmisbörn og þínar uppskriftir henta mjög vel oft á tíðum. Rak augun í að þessi uppskrift er merkt sem mjólkurlaus en svo er ostur í uppskriftinni. :) Sojaostur/veganostur sem fæst hér á Íslandi er meiraðsegja með mjólkurprótínum svo það er enginn ostur hér á landi sem mjólkurofnæmisfólk getur notað.
Takk fyrir.
Kveðja
Kristín

sigrun
20. sep. 2011

Sæl Kristín...

Uppskriftin er merkt sem 'auðvelt að gera án mjólkur'...ekki sem 'mjólkurlaus' :)

María
01. nóv. 2012

Ætli ég geti skipt út ostinum fyrir jógúrt? Er á candidafæði.

sigrun
01. nóv. 2012

Það er töluvert ólíkt svo ég held ekki. Það er frekar að sleppa ostinum. Máttu ekki nota sojaost? Eða geitaost??

María
02. nóv. 2012

Takk. Ég má ekki borða neina osta samkvæmt thecandidadiet.com en svo eru aðrar síður sem leyfa a.m.k. geitaost. Er pínu lost í þessu :o)

sigrun
02. nóv. 2012

Ég skil þig. Það er kannski best að sjá nákvæmlega hvað það er sem þú mátt ekki borða og fikra þig svo áfram. T.d. ef þú mátt ekki neyta mjólkursykurs þá inniheldur sojaostur ekki slíkt en hann gæti innihaldið eitthvað annað sem þú mátt ekki fá svo lestu innihald vel út frá því hvað candida fæðan leyfir. Svo er gott að skrifa hjá sér hvað má og hvað má ekki, setja upp í t.d. excel skjali og fikra sig áfram. Gangi þér sem allra best :)

Linda Björg
28. des. 2012

Góðan daginn.
Mér likar þessi uppskrift og langar að prufa, en þó ekki maísinn, mér finnst mais mjög vondur. Hvað get ég notað í staðinn ? Með hverju mælir þú ?
kv. Linda Björg.

sigrun
28. des. 2012

Þú getur sleppt maískorninu eða jafnvel notað meira af grænum baunum í staðinn.

Þuríður
06. jan. 2013

Verulega gott og einfalt að gera ýmsar variasjónir út frá grunnhugmyndinni. Takk fyrir :)

sigrun
07. jan. 2013

Gleður mig að heyra Þuríður :)