Egg Fu Yung með hýðishrísgrjónum

Þetta er uppskrift sem ég fann í einni af matreiðslubókunum mínum. Þetta er svona ekta kínverskur réttur (nema vantar olíuna sem er oft á austurlensku stöðunum). Rétturinn er meinhollur, mildur og fer vel í maga. Rétturinn er líka próteinríkur enda notaði ég einungis eggjahvíturnar og sleppti eggjarauðunum.

Athugið að uppskriftin er merkt sem hnetulaus en inniheldur sesamolíu. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir sesamfræjum ættu þá að sleppa því að nota olíuna.

Ég geri yfirleitt mikið af þessum rétti í einu og nota í kvöldmat daginn eftir sem og í nestisboxið.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án eggja

Egg Fu Yung með hýðishrísgrjónum

Fyrir 4

Innihald

  • 175 g hýðishrísgrjón eða bygg (bankabygg)
  • 2 shiitake sveppir (eða 2 stórir venjulegir), sneiddir þunnt
  • 4 eggjahvítur, hrærðar lauslega
  • 2 msk tamarísósa
  • 1 tsk kókosolía
  • 1 blaðlaukur, lítill, skorinn langsum og svo í þunnar sneiðar (allt nema blöðin)
  • Fjórðungur rauð paprika, skorin í bita
  • 60 g mambussprotar, hver sneið skorin í tvennt
  • 125 g ferskar baunaspírur
  • 1 msk sesamolía (má sleppa en gefur gott bragð)
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) og pipar

Aðferð

  1. Sjóðið grjónin samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Setjið til hliðar.
  2. Hrærið eggjahvíturnar aðeins og bætið salti og pipar út í.
  3. Sneiðið sveppina þunnt.
  4. Skerið paprikuna í helming, fræhreinsið og skerið fjórðung paprikunnar í bita.
  5. Skerið blaðlaukinn í helming, langsum og sneiðið fínt (allt nema blöðin).
  6. Hitið kókosolíu á pönnu og setjið eggin út á.
  7. Hrærið stöðugt þangað til þau eru orðin “hrærð”.
  8. Bætið tamarísósunni saman við og hitið áfram í nokkrar mínútur. Setjið til hliðar.
  9. Hitið sveppina, blaðlaukinn og paprikuna í tvær mínútur á pönnunni. Bætið vatni út á pönnuna ef vantar meiri vökva.
  10. Bætið mambussprotunum og baunaspírunum saman við og hitið í mínútu.
  11. Bætið grjónunum út á pönnuna ásamt sesamolíu. Hitið í nokkrar mínútur.
  12. Kryddið með meira af salti og pipar ef þarf.
  13. Blandið eggjunum saman við.
  14. Berið fram heitt.

Gott að hafa í huga

  • Ég nota bara eggjahvítur í þennan rétt en upphafleg uppskrift innihélt 2 egg (rauður og hvítur).
  • Nota má annað grænmeti í réttinn t.d. má nota spergilkál (brokkolí), maískorn, kúrbít o.fl.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.