Döðlu- og tofudrykkur

Þetta er einföld og holl uppskrift og hentar vel fyrir þá sem hafa mjólkuróþol. Í uppskriftina þarf frosinn banana en ef þið eruð ekki búin að frysta bananann, setjið þá nokkra&;ísmola út í. Drykkurinn er nokkuð þykkur en hann má þynna eftir smekk. Þið eigið ekki að finna bragð af tofuinu svo ekki vera hrædd við að prófa.

Best er að láta döðlurnar liggja í bleyti í um 30 mínútur (ef þær eru harðar). Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þessa uppskrift.


Döðlu- og tofudrykkur (smoothie)

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Döðlu- og tofudrykkur

Fyrir 2

Innihald

  • 10 döðlur, látið þær liggja í sjóðandi vatni í um 30 mínútur
  • 100 g tofu, mjúkt
  • 1 stór vel þroskaður banani (frosinn), í bitum
  • 100 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
  • 1 msk agavesíróp eða meira eftir smekk
  • Smá klípa múskat (má sleppa)
  • Smá klípa kanill

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar gróft og setjið í skál með sjóðandi heitu vatni. Látið döðlurnar liggja í bleyti í um 30 mínútur.
  2. Leyfið frosnu bananabitunum að þiðna aðeins og setjið þá svo út í blandarann ásamt um 50 ml af sojamjólkinni. Blandið í um 5 sekúndur.
  3. Hellið vatninu af döðlunum og setjið þær út í. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til döðlurnar eru vel maukaðar.
  4. Hellið afganginum af sojamjólkinni út í blandarann ásamt tofuinu. Maukið í um 1 mínútu eða þangað til drykkurinn er silkimjúkur.
  5. Bætið agavesírópinu saman við ásamt kanil og múskati og blandið í nokkrar sekúndur.

Gott að hafa í huga

  • Til að fá svolítið súkkulaðibragð má setja 1 msk af kakói (ekki sykurbættu) út í drykkinn.
  • Ef blandan er of þykk má bæta meira af sojamjólk (eða appelsínusafa) saman við.