Döðlu- og súkkulaðiís

Ég var ekki mikið fyrir að búa til ís hérna áður fyrr, því aðaluppistaðan í þessum hefðbundnu ísuppskriftum er yfirleitt eggjarauður, sykur og rjómi. Ég komst að því síðar að það þarf ekki að nota þessi óhollu hráefni til að útbúa góðan ís. Ég prófaði þessa uppskrift úr einhverri bók sem ég átti en breytti uppskriftinni töluvert og útkoman var bara nokkuð góð og svolítið sparileg, ekta fyrir jólin. Þetta var fyrsta ísuppskriftin sem ég prófaði að gera sjálf!

Ekki er nauðsynlegt að eiga ísvél fyrir þessa uppskrift en nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél. Athugið einnig að gott er að leggja döðlurnar í bleyti í sólarhring en ef þið getið ekki beðið svo lengi má setja þær í sjóðandi heitt vatn í um 30 mínútur. Þær blandast þó kannski ekki alveg jafn vel.

Athugið að ef þið viljið einungis nota sojamjólk (og sleppa hafrarjómanum/matreiðslurjómanum) getið þið notað 2 auka matskeiðar ef kókosolíu og 150 ml af sojamjólk í staðinn.


Hollur og góður súkkulaðiís

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Döðlu- og súkkulaðiís

Fyrir 2-3

Innihald

  • 175 g döðlur lagðar í bleyti yfir nótt eða í sjóðandi vatn
  • 400 ml af vatni (fyrir döðlurnar)
  • 150 ml kókosmjólk eða hafrarjómi (inniheldur glútein)
  • 150 ml sojamjólk
  • 2 msk agavesíróp (ef sojamjólkin er ekki sæt)
  • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 3 msk kókosolía
  • 25 g kakó
  • 40 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri, saxað (má sleppa)

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti yfir nótt í 400 ml af vatni.
  2. Setjið döðlurnar og vatnið í matvinnsluvél og blandið þangað til mjög vel maukað (í um 1 mínútu).
  3. Bætið kakói, vanilludropum og kókosmjólk, sojamjólk og agavesírópi (ef notað) út í og blandið í 30 sekúndur. Setjið kókosolíuna út í varlega og blandið áfram í 30 sekúndur.
  4. Saxið súkkulaðið smátt og setjið til hliðar.
  5. Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 30 mínútur og setjið svo í plastbox. Hrærið súkkulaðinu út í. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
  6. Ef ekki er notuð ísvél: Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið úr frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Setjið súkkulaðið saman við eftir um 2 klukkustundir (þegar ísinn er svolítið stífur því annars sekkur súkkulaðið allt á botninn). Takið ísinn úr frystinum og hrærið í honum þangað til erfitt er orðið að hræra í blöndunni.
  7. Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.

 

Gott að hafa í huga

  • Gott er að setja 100 ml af kaffi út í ísinn til tilbreytingar.
  • Nota má sojarjóma í staðinn fyrir hafrarjóma. Einnig má nota matreiðslurjóma.
  • Ég nota hafrarjómann frá Oatly sem fæst í flestum matvöruverslunum sem og í heilsubúðum.
  • Nota má carob í staðinn fyrir súkkulaði (carob fæst í heilsubúðum þ.e. bæði carobduft og carob sem er eins og súkkulaðistykki í útliti).
  • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur stundum mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi.
  • Nota má hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk. Einnig má nota venjulega mjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.