Döðlu- og appelsínusmákökur
Þessi uppskrift kemur upprunalega úr bók sem ég á og heitir Vegan Cooking. Það er margt sniðugt í henni eins og þessi smákökuuppskrift. Það áttu reyndar að vera 150 grömm af púðursykri og 150 grömm af jurtafeiti (sem stíflar æðarnar meira en koppafeiti). Mér fannst það alger óþarfi og breytti því uppskriftinni aðeins. Það eru einungis 5 matskeiðar af kókosolíu (um 50 ml) og ég notaði 70 grömm af rapadura hrásykri og 2 matskeiðar af hlynsírópi. Ég jók líka döðlumagnið til að fá sætu frekar úr þeim heldur en hrásykrinum og einnig til að auka trefjamagnið. Ég skipti líka hveiti út fyrir spelti. Það er æðislegt að baka þessar í kringum jólin því eldhúsið fyllist af appelsínu- og kanillykt, mmmmmmm. Athugið að uppskriftin hentar þeim sem er vegan (en passið þá að appelsínan sé ekki vaxborin með býflugnavaxi).
Athugið að best er að mala haframjölið í nokkrar sekúndur í matvinnsluvél eða blandara en einnig má mylja það vel með fingrunum.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Döðlu- og appelsínusmákökur
Innihald
- 1 appelsína (börkurinn)
- 120 g þurrkaðar döðlur (ekki of mjúkar)
- 75 g haframjöl
- 1 tsk kanill
- 150 g spelti
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 2 msk hreint hlynsíróp
- 5 msk kókosolía
- 100 ml sojamjólk (eða eins og þarf)
Aðferð
- Rífið appelsínubörkinn fínt á rifjárni. Gætið þess að rífa einungis börkinn, ekki hvíta hýðið undir honum.
- Saxið döðlurnar mjög smátt.
- Malið haframjöl í matvinnsluvél eða blandara í 5 sekúndur.
- Í stóra skál skuluð þið sigta saman spelti, lyftiduft og kanil. Bætið haframjöli, döðlum og appelsínuberki út í og hrærið vel.
- Í litla skál skuluð þið hræra saman rapadura hrásykri, hlynsírópi og kókosolíu. Hellið út í stóru skálina.
- Hellið sojamjólkinni varlega út í stóru skálina, og aðeins því magni sem þið þurfið (byrjið með 75 ml). Deigið má ekki vera of blautt að deigið leki af skeiðinni ef þið snúið henni á hvolf.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu (gætuð þurft tvær). Setjið um eina matskeið af deigi fyrir hverja smáköku, á bökunarpappírinn, hafið um 2 sm bil á milli þeirra. Ýtið létt ofan á kökurnar með gaffli.
- Bakið við 180°C í um 20-25 mínútur.
- Leyfið kökunum að kólna í opnum ofninum.
Gott að hafa í huga
- Hægt er að nota rúsínur og/eða apríkósur í stað þess að nota döðlur
- Það er mjög gott að setja dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði t.d. frá Green & Black's) út í deigið. Það er ekki verra að nota appelsínusúkkulaði.
- Athugið að smákökurnar eru bestar nýbakaðar. Frystið þær smákökur sem þið borðið ekki samdægurs og hitið svo upp síðar. Þær verða eins og nýbakaðar.
- Nota má aðra mjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
Ummæli um uppskriftina
05. mar. 2013
Má nota stevíu í staðinn fyrir sykurinn í þessu?
05. mar. 2013
Ekki nema þú notir granulated útgáfuna (sem oft er búið að bæta alls kyns drasli í). Hlutföllin breytast of mikið ef maður notar stevia eingöngu. Ég hef ekki prófað en myndi ekki þora nema með því að gjörbreyta uppskriftinni.